Skip to main content

Pistlar

Stjórn — AM 227 fol.

AM 227 fol. er í hópi glæsilegustu handrita í hinu mikla safni Árna Magnússonar og ber íslenskri bókagerð um miðbik fjórtándu aldar fagurt vitni. Nú eru í bókinni 128 blöð en nokkuð hefur glatast úr henni og ekki ósennilegt að upphaflega hafi blöðin verið í námunda við 150. Handritið geymir þýðingu á nokkrum bókum Gamla testa­ment­isins með ívafi skýringargreina úr lærdómsritunum Historia scholastica eftir Petrus Comestor og Speculum historiale eftir Vinsentíus frá Beauvais. Þessi samsteypa, sem einnig er til á öðrum miðalda­hand­rit­um, hefur líklega orðið til í nokkrum áföngum á þrettándu öld og fram á þá fjórtándu og hefur lengi gengið undir nafninu Stjórn. Uppruni og merking þeirrar nafngiftar er reyndar ekki með öllu ljós en nærtækt er að ímynda sér að hún vísi til stjórnar Guðs á sköpunarverkinu.

Stjórn geymir í senn heilaga ritningu og gríðarmikinn guðfræði­legan lærdóm og hefur því þótt verðskulda mikla viðhöfn í bókagerð. Ekkert hefur enda verið til sparað að gera bókina sem glæsilegasta. Kaflafyrirsagnir eru ritnar fagurrauðu bleki og á flestum síðum skartar textinn rauðum, grænum eða bláum upphafsstöfum með einhvers konar flúri. Helst af öllu gleðja þó augað stórir sögustafir þar sem brugðið er upp mynd af atburðum úr Gamla testamentinu. Þar má meðal annars sjá Adam og Evu standa við skilningstréð og höggorminn með mannsandlit hringa sig upp tréð. Enn fremur sést Ísak liggja á altarinu og yfir honum stendur Abraham með sverð á lofti. Þessar lýsingar eru allar gerðar af miklu listfengi og hefur verið bent á skyld­leika þeirra við lýsingar í hópi enskra saltarahandrita frá því snemma á fjórtándu öld. Listamaðurinn hefur því mögulega sótt fyrirmyndir sínar til Englands eða í ensk saltarahandrit sem borist hafa hingað út.

            

 

Textinn er skrifaður með tveimur höndum, A og B. Skrifararnir hafa ekki verið neinir byrjendur því að rithendur þeirra má finna á nokkr­um hópi annarra handrita. Saman hafa þeir einnig skrifað annað Stjórnarhandrit, AM 229 fol., en aðeins hafa varðveist sextán blöð af því, og einnig er hendur þeirra beggja að finna (ásamt tveimur öðrum) á AM 657 a–b 4to með Klárus sögu og ýmsum ævintýrum. Meðal þekktustu verka með hendi skrifara A er hin mikla Wormsbók, AM 242 fol., er geymir meðal annars Snorra-Eddu og málfræði­ritgerðirnar fjórar, en auk þess hefur hann einnig skrifað handrit með Egils sögu (AM 162 A β fol.), Maríu sögu (AM 240 IV fol.) og Jónsbók tvisvar (GKS 3269 a 4to og AM 127 4to), svo eitthvað sé nefnt. Skrifari B hefur skrifað Stjórn þriðja sinni (NRA 60 A) og hluta af Rómverja sögu (AM 595 a–b 4to).

Þessi mikla og vandaða bókagerð er augljóslega verk reyndra manna og vegna þess hve veglegan sess trúarlegt efni skipar má teljast sennilegt að handritin hafi verið skrifuð og lýst við kirkjulegt mennta­setur. AM 227 fol. hefur verið í eigu Skálholtsstóls seint á sextándu öld — og þaðan hefur það komist í eigu Árna Magnússonar — en um sögu þess fram að því er ekkert vitað. Ferill sumra annarra handrita með hendi skrifaranna tveggja geyma þó tengsl við Norðurland, meðal annars kirkjur í Húnavatnssýslu, og því er bene­dikt­ína­klaustr­ið á Þingeyrum nærtækur kostur þegar leitað er að upprunastað.

Birt þann 1. september 2017
Síðast breytt 24. október 2023