Skip to main content

Pistlar

Söngva-Borga og Galdra-Manga

Um íslenskar kvæðakonur fyrri alda

Kvæðamenn voru skemmtikraftar síns tíma, ferðuðust á milli bæja og unnu fyrir sér með fréttaflutningi og rímnasöng. Kvenmenn sem og karlmenn voru þekkt af söngrödd sinni og kvæðaflutningi og fengu gjarnan viðurnefni eftir því. Hér á eftir verður minnst stuttlega á tvær áhugaverðar konur sem voru þekktar af söng sínum.
               Meðal kvenna á 16. öld má nefna Vilborgu Jónsdóttur, móðursystur Guðbrands Þorlákssonar biskups[1], sem var ávallt nefnd Söngva-Borga. Viðurnefnið fékk hún af því að hún þótti syngja frábærlega vel og var þekkt af söng sínum. Vilborgar er getið í Sýslumannaæfum en foreldrar hennar voru Jón Sigmundsson lögmaður og sýslumaður og Björg Þorvaldsdóttir. Um Söngva-Borgu stendur skrifað: ,,Vilborg, kölluð Söngvaborga, giptist eigi, en átti barn með drengtetri, varð seinast úti”[2]  og í öðru riti er henni lýst svo: ,,ógift listhneigð kona á faraldsfæti.”[3] Söngva-Borga, sem var af góðum ættum, fór ótroðnar slóðir í lífinu, sem var eflaust ekki dans á rósum, eignaðist barn í lausaleik og giftist aldrei, ferðaðist á milli bæja og varð að lokum úti.
Þessi áhugaverða kona, er viðfangsefni Jóns Trausta[4] í sögulegri skáldsögu frá fyrri hluta 16. aldar[5] og lýsir höfundur henni svo í sögunni: ,,Þessi roskna, fátæka förukona, … þetta kvenlega skrípi, sem mörgum fanst sjálfsagt að hafa fyrir fífl, sýndi sig allt í einu að vera gædd gáfu, sem lyfti henni langt upp yfir allan fjölda manna og gerði hana að veru, gæddri guðdómlegum áhrifum. – Hún hafði meira til brunns að bera en þessa fögru og miklu rödd. Öll meðferð hennar á því, sem hún söng, lýsti djúphygni og skáldlegum skilningi.”[6]
               Á 17. öld var uppi önnur annáluð kvæðakona, nefnd Galdra-Manga. Margrét Þórðardóttir eða Galdra-Manga var prestsfrú af Snæfjallaströnd og voru um hana miklar þjóðsagnir. Faðir hennar var sagður, Þórður Guðbrandsson sem var brenndur fyrir galdra í Trékyllisvík árið 1654 og stuttu síðar var Margrét einnig kærð fyrir galdra, ofsótt um allt land og eftirlýst í Alþingisbókum eftir miðja 17. öld.[7] Í Alþingisbókum er lýsingin á strokukonunni Galdra-Möngu svohljóðandi: ,,Vel að meðalvexti, ljósleit, kinnbeinahá, léttfær og skynsöm í máli. Kveður nærri kvenna bezt.”[8] Síðsumar 1662 var hún loks svarin saklaus af göldrum á Alþingi. Manga var langlíf og í manntalinu 1703 er hún skráð til heimilis hjá syni sínum á Lónseyri, Snæfjallaströnd, þá um nírætt.[9] Lesa má um Galdra- Möngu í riti Árna Óla, Frásagnir: Þjóðlífsmyndir frá ýmsum tímum[10]og í Þjóðsögum Jóns Árnasonar.[11]

 Þessar lýsingar gefa vísbendingar um að konur voru einnig virkir þátttakendur í veraldlegum söng, og einhverjar þeirra þekktar af söng sínum og kveðskap og gáfu karlmönnum efalaust lítið eftir á því sviði.

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 22. júní 2018
Heimildir

[1] Bogi Benediktsson: Sýslumannaæfir. Rvk. 1881–1884, bls. 461–464. Jón Espólín: Íslands Árbækur í sögu-formi. III. Rvk. 1942–1947, bls. 61. Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur II, Rvk. 1964, bls. 261. Bjarni Þorsteinsson Íslenzk þjóðlög. Siglufjörður 1974, bls. 32

[2] Bogi Benediktsson: Sýslumannaæfir..., bls. 463.

[3] Stefán Aðalsteinsson: Svarfdælingar II, Rvk. 1976–’78, bls. 63.

[4] Guðmundur Magnússon f. 1873.

[5] Jón Trausti: Söngva-Borga: Saga frá fyrri hluta 16. aldar. Ritsafn 5. Rvk. 1943, bls. 319–351

[6] Jón Trausti: Söngva-Borga…,  bls. 328.

[7] Bogi Benediktsson: Sýslumannaæfir..., bls. 323. Íslenskar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940. V. bindi, Rvk. 1952, bls. 19–20. Bjarni Þorsteinsson: Íslenzk þjóðlög..., bls. 806. Íslenzkar gátur … II, bls. 261–265. Hallgrímur Helgason: Íslenzkar tónmenntir: kvæðalög, forsaga þeirra, bygging og flutningsháttur. Rvk. 1980, bls. 41–42.

[8] Alþingisbækur Íslands. 6, 1640–1662, Rvk. 1933–1940, bls. 385.

[9] http://www.manntal.is/leit/Lónseyri/1703/1/1703, 24. sept. 2015.

[10] Árni Óla. Frásagnir: Þjóðlífsmyndir frá  ýmsum tímum. Rvk. 1955, bls. 38–49.

[11] Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. Safnað hefur Jón Árnason I. Rvk. 1961, bls. 517–520.