Bak við safnmarkið AM 28 8vo er ekki aðeins að finna eitt mesta fágæti Árnasafns, heldur einnig eina sérkennilegustu afurð miðaldabókmenningar.Innihaldið er að vísu forndanskir textar sem að einum frátöldum (hinu lengra konungatali) eru einnig kunnir af öðrum heimildum. Aðalhlutarnir eru Skánsku lög – skráning skánsks hefðarréttar á miðöldum, frágengin á tímabilinu milli 1201 og 1216 að því er talið er – og Skánsku kirkjulög – samkomulag um réttarákvæði sem skánskir bændur og erkibiskupinn í Lundi gerðu með sér laust eftir 1170. Þessir tveir textar eru ritaðir með einni og sömu hendi og ná samtals yfir rúmlega 90 af 100 blöðum handritsins (sem skipt er í 14 kver).Afgangurinn er ýmsir sagnfræðilegir smátextar sem af rithendinni að dæma virðast skráðir nokkru síðar, upprunalega ef til vill sem sjálfstætt handrit; stutt brot af dönsku fornkonungatali; dálítið lengra brot með romsu nafna danskra konunga frá fornu fari til Eiríks menved (1286–1319) ásamt vel völdum viðbótum, einkum um það hvaða kappa konungarnir lögðu að velli og hvaða þjóðflokka þeir gerðu sér skattskylda; og loks lýsing á landamærum Danmerkur og Svíþjóðar og sjálfri athöfninni þegar landamærin höfðu verið dregin. Svo er klykkt út með þessu vísubroti ʻdrömde mik en dröm i nat um silki ok ærlik pælʼ (dreymdi mig draum í nótt um silki og forláta pell) með tilheyrandi nótum, sennilega þeim elstu sem varðveist hafa á Norðurlöndum við norrænan texta. Lagið þekkja flestir Danir sem hlémerki á rás 1 hjá Danska ríkisútvarpinu, Danmarks Radio.]
Codex runicus AM 28 8vo Nafn handritsins og frægð helgast af því að efni þess er frá upphafi til enda skráð með rúnaletri. Rúnirnar eru með einstaka breytingum sóttar í hið svonefnda alstungna rúnaletur, þar sem úr 16 tákna rúnastafrófinu frá víkingatímanum er búið til stafróf með rúnum sem samsvara næstum öllum stöfum í latneska stafrófinu; það er alstungna rúnaletrið sem almennt er notað í rúnaáletrunum á miðöldum (á legsteinum, í kirkjum o.s.frv.). Auk sjálfra rúnanna eru tveir lóðréttir punktar til að marka orðaskil sóttir í rúnarithefðina, og rammalínurnar líkast til einnig. Úr latneskri bókagerðmá aftur á móti þekkja rautt (sjaldan gulbrúnt eða blátt) blek sem notað er í upphafi kafla (upphafsstaf eða -orði) og svo laufblaðaskreytið sem tveir upphafsstafir aftast í handritinu eru puntaðir með.
Það er aðeins til eitt norrænt handrit sem mögulega má jafna við Codex runicus, brot sem er sex blöð í tólfblaðabroti (duodecimo), SKB A 120 í Konunglega bókasafninu í Stokkhólmi. Vegna þess hvað bæði rúnum og máli svipar saman gera menn ráð fyrir því að þessi tvö handrit séu runnin frá sama skrifaraskóla sem giskað hefur verið á að hafi verið starfræktur í eina sistersíanaklaustrinu á Skáni, Herrisvad (stofnað 1144). Hin óljósu tengsl við klaustrið eru rakin í fyrsta lagi til skánskra máleinkenna sem koma fyrir í báðum handritum, í öðru lagi til efnisins í Stokkhólmsbrotinu, en það geymir þýðingu úr latínu á Maríugrát þeim sem á miðöldum var eignaður sistersíanaábótanum Bernharði frá Clairvaux (1090–1153).
Þrátt fyrir þessar vísbendingar er varla hægt að kveða upp úr um ritunarstað Codex runicus og enn erfiðara er að slá því föstu frá hvaða tíma handritið er, því ekki eru til nein tímasett gögn til viðmiðunar. Þau atriði, þó ekki afgerandi, sem geta stutt hina hefðbundnu tímasetningu, um 1300–1350, eru í fyrsta lagi að notað er bókfell, í öðru lagi málfarið á lagatextunum, sem tvímælalaust líkist mest málfarinu í eldri handritum Skánsku laga með latínuletri; í þriðja lagi bendir skreytið á upphafsstöfunum tveimur og útlitið allt eindregið til miðalda. Í sagnfræðilega efninu aftast í bókinni er talað í þátíð um drottningu Eiríks menved (1274–1319) sem dó sama ár og hann: ʻInggiborhþ het drotning hansʼ (Ingibjörg hét drottning hans); af því má ráða að þessi hluti handritsins hljóti að vera skrifaður eftir 1319.
Á sama hátt og staður og tími er óljós er einnig óljóst hvers vegna rúnaletur er hér notað sem bókletur. Þar sem ritvillur benda til þess að handritið sé komið (gegnum milliliði) frá frumriti með latneskum bókstöfum hafa menn giskað á að í rúnanotkuninni felist ákveðinn vilji til að endurlífga gamla norræna letrið eða hefja það upp á stall til hins latneska.
Þó að saga handritsins á miðöldum sé myrkri hulin er margt í ferli þess frá árinu 1566 hins vegar fullkomlega ljóst og það eigum við athugasemdum eigenda á saurblaðinu að þakka. Líta má á það sem greinilegan vitnisburð um vaknandi áhuga heldri manna á þjóðarsögunni á sextándu öld, að fyrsti eigandi þess sem vitað er um er hinn lærði ríkiskanslari Antonius Bryske (um 1500–1566). Eftir að hafa verið í vörslu tveggja þekktra eigenda og að minnsta kosti tveggja óþekktra skýtur handritinu upp árið 1638 hjá lækninum og rúnafræðingnum Ole Worm (1588–1654). Þegar hann gaf út sagnfræðilegu textana þrjá árið 1642var styttra konungatalið enn óskert, öfugt við það sem reyndist þegar Jakob Langebek (1710–1775) gaf ritið út að nýju árið 1772. Nokkur þeirra blaða sem vantar í handritið hafa því líklega ekki glatast fyrr en á seinni hluta sautjándu aldar þegar það var bundið í skinnband sem það er enn í.
Frá Worm-ættinni fór Codex runicus til annars fjölfræðings, Ole Borch (1626–1690), sem með eigin hendi hefur ritað nafn bókarinnar á kjölinn en áletrunin er nú varla merkjanleg. Ennfremur er vitað að árið 1717 var hún í bókasafni stúdentagarðsins við Stóra Kanúkastræti sem Borch setti á fót. Hvort hún var af hreinni tilviljun í láni heima hjá næsta nágranna, Árna Magnússyni, á októberdögunum árið 1728 þegar eldsvoðinn geisaði í Kaupmannahöfn og stúdentagarður Borchs brann til grunna er ekki vitað; en hitt er víst að bókinni var, fyrir að því er virðist tilskikkan æðri máttarvalda, bjargað frá bálinu ásamt obbanum af handritum Árna Magnússonar og hún lenti síðan sem númer 28 í flokki áttblöðunga (octavo) í skrá Jóns Ólafssonar frá því um 1730 yfir handskrifaðar bækur Árna Magnússonar. Handritið er varðveitt í Kaupmannahöfn.
Síðast breytt 25. júní 2018