Skip to main content

Pistlar

Páfabréf frá tímum krossferðanna

NRA AM Dipl. Norv. Fasc. III 1. Ljósmynd: Oslo, Riksarkivet, Seksjon for eldre arkiver og spesialsamlinger.

Skinnbréf frá Klemens þriðja páfa til Norðmanna ritað 28. janúar 1189. AM dipl. norv. fasc. III, 1 í Norska ríkisskjalasafninu er páfabulla á bókfelli, opið bréf sem Klemens þriðji páfi sendi „kærum bræðrum sínum, öllum klerkum í Noregi“ (dilectis filiis uniuersis clericis per Norwegiam constitutis). Bullur eru opinber bréf páfa og hafa flutt tilskipanir kaþólsku kirkjunnar síðan snemma á miðöldum. Orðið bulla er latína og merkir upphaflega ‘bóla’, en vísar hér til innsiglis þessara bréfa sem var úr blýi og bar mynd postulanna Péturs og Páls auk nafns páfans sem sendi bréfið. Bréf Klemens til Norðmannanna var skrifað 28. janúar árið 1189 í Vatikaninu og er þar með í hópi elstu handrita í Árnasafni.

Klemens þriðji sat einungis fá ár (1187–1191) í páfadómi en þau voru mikill átakatími í Evrópu og utan hennar. Þar bar hæst þriðju krossferðina sem varð fræg á Vesturlöndum gegnum sagnirnar af Ríkarði ljónshjarta og Friðriki Barbarossa keisara. Í þessu bréfi bannar Klemens norskum prestum að vígbúast og halda í krossferðina. Kirkjunnar menn, segir hann, ættu ekki að láta flækja sér í stríðsrekstur leikmanna og hann hvetur þá til þess að halda sig frá veraldlegum deilumálum. Prestum sé að vísu heimilt að slást í för með krossförunum en þeir megi aðeins sinna takmörkuðum prestsverkum: þeim beri að veita dauðvona fólki skriftir og síðustu smurningu og þeir eigi að letja menn frá því að fremja ódæði.

Bréfið kemur úr miklu safni norskra fornbréfa sem Árni Magnússon dró saman, en í því voru næstum 900 bréf og skjöl frá Þrándheimi, Ósló, Björgvin og Stafangri, auk bréfa annars staðar frá, meðal annars frá Færeyjum og Hjaltlandi. Þessi skjöl voru geymd í Árnasafni í Kaupmannahöfn þar til 1937 að bróðurpartinum var skilað til Noregs. Flest þeirra eru nú varðveitt í Norska ríkisskjalasafninu í Ósló.

Birt þann 1. desember 2016
Síðast breytt 24. október 2023