Ormsbók – Codex Wormianus – eða AM 242 fol. sem rituð er um 1350, er merkilegt handrit vegna innihalds síns, sögu og varðveislu. Einn þeirra fáu íslensku miðaldahöfunda sem við vitum deili á er Snorri Sturluson (1179–1241). Það rit sem með öruggastri vissu er honum eignað er Edda, sem einnig er nefnd Snorra Edda – til aðgreiningar frá hinum höfundarlausu eddukvæðum sem áður gengu undir heitinu Sæmundar Edda.
Edda er samin um 1230 sem kennslubók í dróttkvæðagerð, skáldskaparfræði, og í Ormsbók er að finna alla fjóra þætti hennar: 1. Prologus, sem setur verkið í kristið evrópskt samhengi, 2. Gylfaginningu, goðsagnir sem hafa m.a. að geyma hinar frægu sögur af Óðni, Þór og Baldri (nafnið vísar til rammafrásagnarinnar sem þær eru felldar inn í), Skáldskaparmál, leiðsögn í norræna skáldamálinu þar sem skýrðar eru kenningar, þ.e. myndhverfingar, í dróttkvæðum: skip er t.d. hægt að kalla sjávar hest eða hafs skíði, og 4. Háttatal, bragfræði, leiðarvísi um form bundins máls, þar sem í rúmlega 100 erinda kvæði eru sýndar hinar fjölbreyttu myndir dróttkvæðs háttar sem var hið ríkjandi form norræns miðaldakveðskapar.
Ormsbók – Codex Wormianus – AM 242 fol. 17v– 18r. Snorra-Edda telst til hinna allra merkustu íslensku miðaldarita, hún er í senn aðalheimildin um norræna goðaheiminn og lykilrit til skilnings á íslenskum dróttkvæðum. Með því að fella auk þess inn í verk Snorra hinar fjórar svokölluðu málfræðiritgerðir víkkar ritstjóri Ormsbókar út fræðasvið þess svo það fjallar einnig um stíl og mælskulist. Fyrsta málfræðiritgerðin hefur hér algera sérstöðu því að hún er frumleg fræðileg lýsing frá því um 1150 á íslenska hljóðkerfinu. Ritgerðina er aðeins að finna í þessu 200 árum yngra afriti, Ormsbók. Handritið hefur einnig að geyma eina varðveitta afritið af Rígsþulu. Handritið fékk Árni Magnússon árið 1706 frá Christian Worm, sonarsyni Ole Worm, sem handritið dregur nafn af. Ole Worm var prófessor í læknisfræði við Hafnarháskóla en jafnframt forgöngumaður um norrænar fornfræða- og rúnarannsóknir. Í starfi sínu við háskólann var hann leiðbeinandi margra íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn og átti í bréfaskiptum við þá eftir að þeir sneru heim til Íslands aftur. Handritið fékk hann árið 1628 frá lærdómsmanninum séra Arngrími Jónssyni, eins og áritun á forsíðunni gefur til kynna: Olai Wormii – Dono Arngrimi Jonæ Islandi. Hér mætast hin íslenska og danska fornmenntastefna – nánast dæmigerð fyrir danskt-íslenskt rannsóknarsamstarf í aldanna rás.
Nokkrum köflum Skáldskaparmála og Háttatals sem vantar í handritið hefur Ole Worm aukið við í pappírsafriti, m.a. eftir handriti sem hann fékk að láni hjá vini sínum, sagnfræðingnum Stefan Stephaniusi, prófessor við Sóreyjarakademíuna. Í samanburði við flest íslensk skinnhandrit virðast blaðsíður Ormsbókar áberandi ljósar. Skýringin er sú að Worm lét aðstoðarmann sinn íslenskan þvo þær úr keytu, eins og Worm greinir frá í bréfi til Stephaniusar, en hinn síðarnefndi hafði leitað ráða hjá Worm um það hvernig gera mætti mjög dökkt handrit Grettis sögu, sem hann átti, læsilegra. Handritið er 89 blöð og er varðveitt í Kaupmannahöfn. Ekki er vitað hver skrifaði það en ýmislegt bendir til að það sé norðlenskt.
Snorra-Edda er einnig í tveimur öðrum miðaldahandritum: Konungsbók (GKS 2367 4to) sem Friðrik þriðji Danakonungur eignaðist 1662, nú varðveitt í Árnastofnun á Íslandi, og Uppsalahandritinu (DG 11 4to), sem Stephanius eignaðist 1639, nú í háskólabókasafninu í Uppsölum. Enn fremur er Eddu að finna í Trektarbók (Ms. 1374, pappírsafriti af miðaldahandriti), sem Ole Worm eignaðist árið 1626 en endaði í háskólabókasafninu í Utrecht árið 1643.
Síðast breytt 25. júní 2018