Í öðrum kafla Íslandsklukkunnar, fyrsta bindi hinnar þrískiptu sögu Halldórs Laxness, er söguhetjan hýdd opinberlega á haustþingi á Kjalardal. „Að vísu hafði ekkert sannast á Jón Hreggviðsson fremuren fyrri daginn, afturámóti var hann hafður fyrir sökinni einsog ævinlega.“ Að loknu þingi býður bóndinn í Galtarholti nokkrum heldri mönnum ásamt böðli og hinum hýdda upp á brennivín í skemmu sinni. Var þar veitt vel langt fram á kvöld.
Það var myrkt af nóttu þegar menn riðu frá Galtarholti og voru allir veldruknir. En sakir ölbrests lentu þeir í villu óðar en þeir voru komnir útfyrir túngarðinn … .
Orðið ölbrestur hefur verið skilið sem ‘skortur, þurrð á drykkjarföngum’. Þetta kemur þegar fram í einni fyrstu þýðingu Íslandsklukkunnar á erlend mál, á dönsku 1946: „Men paa Grund af Mangel paa Drikkevarer fór de vild …“ (bls. 17–18). Nákvæmlega sama orðalag er í næstu útgáfum sögunnar, „mangel på drikkevarer“. Sami skilningur, ‘mangel på øl el[ler] drik’, er lagður í orðið í Viðbæti við orðabók Blöndals (1963) og enn fremur í Lykilbók að fjórum skáldsögum eftir Halldór Laxness (1997), þ.e. ‘vínþurrð’.
En þessi merking, ‘skortur á drykkjarföngum’, er síður en svo einhlít. Í frásögninni kemur fram að í útihúsinu var brennivínstunna á stokkum og bóndi „skeinkti ört á staup manna“, svo að „í skemmunni [upphófst nú] mikil og almenn teiti.“ Og þegar þeir riðu brott komust þeir ekki klakklaust nema rétt út fyrir túngarð. Það er því vart brennivínsleysi um að kenna að þeir lentu í villum, féllu af baki eða riðu í mógrafir. Enda má sjá dæmi þess í heimildum að orðið ölbrestur hafi merkt í eldra máli annað en ‘skortur á (áfengum) drykk’. Í Biskupasögum Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal (I, 258) segir svo m.a. af viðskiptum Jóns Vídalíns Skálholtsbiskups og Magnúsar Sigurðssonar í Bræðratungu:
Þó biskupinn M. Jón Vídalín vandaði um við hann um hans stórmensku og ölbrest, samt skipaðist Magnús ekki við það.
Í Skólameistarasögum Jóns prófasts Halldórssonar (159, 141) kemur orðið ölbrestur einum tvisvar sinnum fyrir, þar sem vikið er að drykkjuskap skólameistara:
- En skólaþjónustan er stundaglögg, líður hvorki frátafir, ölbrest né annað þess háttar, meðan hún yfirstendur.
- Hann hafði ölbrest og hafði drukkinn lagt sig upp í sæng sína.
Það er því sönnu nær að ölbrestur merki öllu heldur ‘drykkjuskapur, ofneysla áfengis’ og jafnvel ‘ölæði’ eins og það virðist merkja í frásögn Íslandsklukkunnar. Hér er því ekki á ferðinni orðið brestur í merkingunni ‘skortur’, eins og í orðunum uppskerubrestur, aflabrestur, heybrestur, heldur tengist þetta sagnorðinu bresta í merkingunni ‘braka, brotna, skella á’, líkt og í orðunum brestur á með norðan-stórhríð, og tengist þá frekar orðum eins og t.d. herbrestur, héraðsbrestur, hrossabrestur, landbrestur.
(nóvember 2008)
Síðast breytt 24. október 2023