Skip to main content

Pistlar

Njálubrot frá byrjun 14. aldar – AM 162 B fol. δ

Undir safnmarkinu AM 162 B fol. eru geymd brot úr alls tíu skinnbókum með texta úr Brennu-Njáls sögu, átta frá 14. öld (β, γ, δ, ε2, ζ, η, ϑ, κ), en þrjú frá 15. öld (α, ε1, ι). 14. aldar brotin eru til rannsóknar um þessar mundir í verkefninu Breytileiki Njáls sögu sem unnið er með styrk frá Rannsóknarmiðstöð Íslands (Rannís). Verkefnið snýst um að rannsaka tilbrigði í máli, texta og handritageymd Njáls sögu eins og þau birtast í þeim rúmlega 60 handritum sem varðveita söguna og eru skrifuð á 14. og allt fram á 19. öld. Fyrsta skrefið í verkefninu er að skrifa nákvæmlega upp elstu brotin og kanna breytileika þeirra með samanburði við samsvarandi textahluta í þeim skinnbókum frá 14. öld sem varðveittar eru heilar (AM 468 4to Reykjabók, GKS 2870 Gráskinna, AM 132 fol Möðruvallabók, AM 133 fol Kálfalækjarbók og GKS  2868 4to Skafinskinna).

Delta-brotið sem telur 24 blöð er ekki bara það umfangsmesta heldur líka eitt hið elsta af brotunum í AM 162 B fol. Kristian Kålund tímasetti það til ársins 1300 eða þar um bil í handritaskrá sinni en Finnur Jónsson (1923: 519) taldi það jafnvel enn eldra („fra tiden för 1300, og næppe yngre end fra o. 1280“). Álitið er að Njáls saga hafi verið sett saman í kringum 1280 þannig að deltabrotið ætti að standa mjög nálægt frumtextanum. Á síðasta blaðið hefur Högni Finnbogason skrifað nafn sitt og segist eiga bókina. Brotið er stundum kennt við sagnaritarann Þormóð Torfason og kallað Þormóðsbók, en athugasemd með hönd Þormóðar má finna í bókinni. Líklegt er að brotið hafi komist í eigu Árna Magnússonar eftir dauða Þormóðar árið 1719.

Burtséð frá nokkrum blöðum sem eru skemmd eða máð er handritið mjög auðlesið. Skriftin er skýr og samkvæmt Einari Ólafi Sveinssyni „stórkarlaleg“, en hann áleit handritið „varla [...] verk atvinnuskrifara“ (1952: 20). Delta-brotið er um 25 x 17,5 cm að stærð og tvídálka. Fyrirsagnirnar eru skrifaðar með rauðu bleki, upphafsstafir eru stundum líka skreyttir með rauðu en lýsingar eru engar.

Brotið geymir kafla 36-40, 44-51, 56-77 og 88-98 úr Njálu, sem samsvarar um þriðjungi sögunnar. Í því má finna frásagnirnar af deilum Hallgerðar langbrókar og Bergþóru, hestaat Gunnars og Þorgeirs Starkaðarsonar, bardaganum við Knafahóla, bardaganum við Rangá og byrjunina á kaflanum um fall Gunnars. Delta tilheyrir X-flokki Njáluhandrita eins og t. d. Reykjabók sem er aðalhandrit í Njáluútgáfum Konráðs Gíslasonar og Eiríks Jónssonar (1875/1889), Finns Jónssonar (1908,) Svarts á hvítu (1986/1991) og Sveins Yngva Egilssonar (2003/2004).

Delta-brotið er ásamt Reykjabók talið fornlegasta Njáluhandritið að því er máleinkenni varðar. Sem dæmi um fornleg málfræðieinkenni samanborið við önnur handrit frá 14. öld má nefna miðmyndarendinguna -mk (t. d. hræðumk ek, 2vb) eða neitunarviðskeytið -ak (t. d. en þó má vera at ek hættak á, 7ra), en líka notkun myndarinnar nakkvað (í staðinn fyrir nökkut, 1ra, 4ra, 8rb). Bæði miðmyndarendingin -mk og neitunarviðskeytið -ak eru aðallega notuð í beinni ræðu. Það gæti verið vísbending um það að skrifarinn (eða skrifari forrits hans) hafi vísvitandi notað fornlegan stíl til að endurskapa sögulegt andrúmsloft eins og höfundar gera stundum í sögulegum skáldsögum nú á dögum.

AM 162 B fol. delta virðist yfirleitt vera nákvæmt afrit og texta þess ber mjög saman við texta annarra X-handrita. 

Samt má finna í því, burtséð frá les- eða ritvillum, leshætti sem hvergi er að finna í hinum X-handritunum og eru stílbreytingar, meðvitaðar eða ómeðvitaðar. Eitt dæmi er tilsvar Hildigunnar Starkaðardóttur við Þorgeir bróður sinn fyrir bardagann við Knafahóla þegar Þorgeir lofar að færa henni höfuð Gunnars: „En ek get at þú berir lágt hökuskeggit af ykkrum fundi“. Öll önnur handrit hafa hér höfuðit í staðinn fyrir hökuskeggit. Orðtakið „að bera lágt hökuskeggið“ er hins vegar að finna í Ólafs sögu helga og vera kann að skrifari delta-brotsins hafi viljað vísa til hennar ellegar að hann hafi ómeðvitað lagað texta sinn að frásögn Ólafs sögu sem hann hafi þekkt.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 25. júní 2018
Heimildir
  • Einar Ól. Sveinsson (1953): Studies in the manuscript tradition of Njálssaga (Studia Islandica, 13). Reykjavík/Kaupmannahöfn.
  • Einar Ól. Sveinsson (1952): Um handrit Njálssögu. Skírnir 126: 114-152.
  • Finnur Jónsson (1923): Den oldnorske og oldislandske litteraturs historie. Andet bind. Kaupmannahöfn.
  • Jón Þorkelsson (1889): Om håndskrifterne af Njála. Í: Njála udgivet efter gamle håndskrifter. Andet bind. Kaupmannahöfn: 647-787.