Skip to main content

Pistlar

Kvendin góðu – „ég geri ráð fyrir að hún drottni einhvers staðar.“

Nokkrar línur eftir Goethe um konuna í samfélaginu

 

Johann Wolfgang von Goethe; málverk eftir Joseph Karl Stieler. 

Árið 1800 skrifaði Johann Wolfgang von Goethe (1749–1832), þýskur rithöfundur, ljóðskáld og heimspekingur, grein í Vasabók handa dömum(„Taschenbuch für Damen“). Ritgerð Goethes var að vísu ekki eins og útgefandi bókarinnar, Johann Friedrich Cotta, hafði hugsað sér: hann hafði beðið Goethe um að skrifa grein um ósiði kvenna. Goethe notaði hins vegar tækifærið til að segja skoðanir sínar á kvenréttindum og samdi samtal milli damanna Amalie og Eulalie og herranna Sinklair, Armidoro og Seyton (og Arbon, sem ekki kemur fram í eftirfarandi ágripi). Hin einlæga skoðun Goethes á kvenréttindum endurspeglast sennilega best í orðum Seytons. Hægt er að lesa þýska textann í heild sinni hjá „Projekt Gutenberg“.

[…]

Sinklair: „Jæja, öll vandvirkni, ást og tryggð er þá, þegar allt kemur til alls, tengd við völd. Mig langar samt að vita hvort maður á rétt á að segja konur vera valdagráðugar.“

Amalie: „Það er aftur ásökun á bak við hrósið.“

Armidoro: „Vinsamlegast segið þér okkur frá hugsunum yðar, Eulalie mín. Ég held að þér hafið ekki reynt sérstaklega í ritgerðum yðar að hrekja ásökunina um kyn yðar.“

Eulalie: „Ef það væri ásökun þá vildi ég að kyn okkar gæti hnekkt henni með hegðun sinni. En svo framarlega sem við eigum tilkall til valda, ætla ég helst ekki að veita okkur það tilkall. Við erum bara valdagráðugar af því að við erum líka manneskjur. Hvað þýða völd, eins og við notum orðið núna, annað en tilraun til þess að fá að njóta lífsins eins og mögulegt er? Óheflaðir karlmenn sækjast eftir völdum af eigin geðþótta, en göfugir menn í gegnum raunverulegt frelsi. Kannski sýnist þessi viðleitni hjá okkur konum bara vera fjörlegri af því að kynferði, ætterni og lög virðast varna okkur framgöngu – á meðan hið sama er karlmönnum til framdráttar. Það sem þeir eiga, eigum við eftir að eignast. Og það sem maður hefur barist fyrir af elju, ver maður auðvitað staðfastlegar en það sem maður hefur aðeins erft.“

Seyton: „En konur hafa ekki undan neinu að kvarta; nú á dögum erfa þær svo mikið, næstum meira en karlar. Ég held því fram að það sé erfiðara að verða fulltíða karlmaður nú til dags en að verða fulltíða kona. Orðskviðurinn „Hann skal vera herra þinn“ er formúla villimannslegrar tíðar sem er löngu liðin. Karlmenn gátu ekki menntað sig fullkomlega án þess að veita konum sömu réttindi; konur hófu að sækja sér menntun og vogarskálin stóð kyrr. En af því að þær eru meira dugandi til menntunar, mun vogarskálin hallast þeim í vil.“

Armidoro: „Engin spurning: konur verða að öðlast betri kjör hjá öllum vel menntuðum þjóðum. Karlar munu verða þeir sem tapa þegar um gagnkvæm áhrif er að ræða af því að sterka hlið karlsins er að hemja krafta sína, en ekki að stilla þeim í hóf með því að verða kvenlegir. En ef konur taka eitthvað upp frá körlum, þá munu þær hafa betur: ef konur geta betrumbætt sterku hliðar sínar með þessum krafti, þá verður úr sú besta manneskja sem maður getur hugsað sér.“

Seyton: „Ekki hef ég flækt mér í svo djúpstæðar hugleiðingar. Samt held ég að það sé þekkt að hver kona ræður – og á að ráða. Þegar ég kynnist konu gef ég bara gaum að því hvar hún ræður. Því að ég geri ráð fyrir að hún drottni einhvers staðar.“

[…]

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 22. júní 2018