Skip to main content

Pistlar

kjallari

Orðið kjallari ‘hluti húss undir jarðhæð, að hluta eða öllu leyti niðurgrafinn’ kemur þegar fyrir á nokkrum stöðum í fornu máli (sjá Fritzner undir kjallari). Það kemur þar stundum fyrir í myndinni kelleri og er talið vera gamalt tökuorð í norrænum málum úr fornsaxnesku, en þangað komið úr latínu cellarium ‘forðabúr.’ Orðið kjallari hefur þegar í fornmáli getið af sér samsett orð eins og kjallaramaðursteinkjallarivínkjallari. Það hefur varðveist óslitið fram á þennan dag og löngu aðlagast íslensku máli að framburði og beygingu, borið fram /kjadlari/ og hefur t.d. myndina kjöllurum í þágufalli fleirtölu. 

Í 16., en einkum 17. og 18. aldar heimildum bregður því fyrir að orðið kjallari sé notað í nokkuð annarri merkingu en ‘forðageymsla niðurgrafin undir húsi’. Af dæmum frá 17. og 18. öld í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er að ráða að orðið hafi einnig verið haft um umbúnað, ílát, tösku eða kassa til að hafa í vínflöskur, glös og staup á ferðalögum. Sum dæmi eru að vísu skýrari en önnur:

  • kjallari með 6 glösum (Bps AII 17, 603 (1729))
  • kjallari með 6 þriggja marka flöskum fyrir messuvín (K XVIII1 A2, 182 (1757))
  • gamall kjallari með 10 flöskum heilum, sumum forskrúfuðum, sumum skrúfulausum (Bps AII 20, 212 (1768))

Í latnesk-íslenskri orðabók frá árinu 1738 þýðir höfundurinn, Jón biskup Árnason, orðin VASA VIATORIA ‘ferða-ílát’ svo: ‘flöskur, staup, kjallarar og önnur þvílík ker sem menn færa með sér á reisunni’ (Nucl.Lat., bls. 391).

Í 19. aldar ritum og fram á 20. öld þykir þörf á því að skýra hvað átt er við með svona kjöllurum, því að farið er að fyrnast yfir merkinguna og slíkir „ferðabarir“ líklega úr sögunni:

  • „kjallari“ er kista með mörgum ferhyrndum hólfum til þess að geyma í vínflöskur. (TBókm XVII, 110 (1896))
  • Þeir ... áttu svonefnda „kjallara“... . Það voru trékassar með skilrúmum í. (JsJsÞjóðh, 237)

Áður var minnst á að orðið sjálft, kjallari, er gamalt tökuorð í norrænum málum. Sama er að segja um þessa yfirfærðu merkingu, hún er til orðin fyrir erlend áhrif, annaðhvort þýsk eða dönsk. Í danska orðinu kælder ‘kjallari’ er að finna framangreinda merkingu, ‘en slags kasse ..., hvori ... flasker forsendtes ell[er] opbevaredes’ (ODS XI (Kælder 3) 1086), en þessi merking er sögð sjaldgæf og vitnað í 18. aldar heimildir. Enn fremur er þessi merking í þýsku í orðunum kellerflaschenkeller og kellerchen (sjá Grimms Wörterbuch undir KELLER 1 d).

Þess má að lokum geta að til er orðið flöskufóður í sömu merkingu og kjallari og á sér fyrirmyndir í dönsku (flaskefo(de)r) og þýsku (flaschenfutter). 

Birt þann 1. ágúst 2008
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir
  • Bps: Biskupsskjalasafn (A: Skálholtsstóll)
  • Fritzner: Ordbog over det gamle norske Sprog af Dr. Johan Fritzner. Andet Bind. Hl ― P. Kristiania 1891.
  • Grimms Wörterbuch: Das Deutsche Wörterbuch von Jacob und Wilhelm Grimm. Online-Wörterbuch [http://germazope.uni-trier.de/Projects/DWB].
  • JsJsÞjóðh: Íslenzkir þjóðhættir eftir séra Jónas Jónasson frá Hrafnagili. Önnur útgáfa [Einar Ól. Sveinsson gaf út]. Reykjavík 1945.
  • K: Einstakar skjala- og vísitasíubækur úr Prófastsskjalasafni.
  • Nucl.Lat.: Nucleus Latinitatis. Ný útgáfa. Guðrún Kvaran og Friðrik Magnússon sáu um útgáfuna. Orðabók Háskólans 1994 [Frumútg. Khöfn 1738].
  • ODS: Ordbog over det danske Sprog. Ellevte Bind. København 1929.
  • TBókm: Tímarit hins íslenzka Bókmentafélags. XVII. 1896.