Skip to main content

Pistlar

Hringaná og kvenkenningar

Eftirfarandi texti var upphaflega skrifaður sem svar við fyrirspurn til Vísindavefs Háskóla Íslands. Spyrjandi vildi fá svar við því hvort Hringaná væri eiginnafn.

Orðið hringaná er ekki eiginnafn heldur kvenkenning. Í fornu skáldamáli var mjög notast við kenningar og hafa skáld leikið sér við kenningasmíð allt fram á þennan dag. Snorri Sturluson fjallar um kenningar í kaflanum Skáldskaparmál í Eddu sinni og kennir hvernig kenna skuli sól, vind, eld, vetur, sumar, menn, konur, gull og fleira. Um konur segir meðal annars:

Konu skal kenna til alls kvenbúnaðar, gulls og gimsteina, öls eða víns eða annars drykkjar, þess er hon selr eða gefr ... (1954:146).

Forsíða Snorra-Eddu í handritinu ÍB 299 4to frá árinu 1764. Jakob Sigurðsson (1727–1779) skrifaði handritið eftir prentaðri útgáfu Snorra-Eddu sem gefin var út í Kaupmannahöfn árið 1665.

Í kaflanum Skáldskaparmál í Snorra-Eddu er fjallað um kenningar.

Með kenningu er átt við umritun á orðum í lausamáli. Einfaldasta gerð kenningar er tvíliðuð. Þá er um að ræða tvö nafnorð, það er stofnorðið og kenniorðið. Kenningin hringaná er þannig mynduð og er myndhverf. Kenniorðið hringa stendur í eignarfalli fleirtölu. Stofnorðið  er sótt til norrænnar goðafræði og eiginlega ætti að skrifa það með N, það er hringa Ná. Ná, oftar ritað Gná, var samkvæmt Snorra-Eddu ein ásynja og þjónaði Frigg. Frigg sendi hana til að erindast fyrir sig í ýmsum heimum. Til frekari fróðleiks um kenningar má benda á ritið Hugtök og heiti í bókmenntafræði á síðu 1. Jónas Hallgrímsson orti ljóðið 1836 og sendi vini sínum Konráði Gíslasyni. Ljóðið er svona:

Hættu að gráta hringaná,
heyrðu ræðu mína.
Ég skal gefa þér gull í tá,
þó Grímur taki þína.

Hættu að gráta hringaná,
huggun er það meiri.
Ég skal gefa þér gull í tá,
þó Grímur taki fleiri.

Hættu að gráta hringaná,
huggun má það kalla.
Ég skal gefa þér gull í tá,
þó Grímur taki þær allar.

Grímur sá sem talað er um í kvæðinu var Magnússon og hafði viðurnefnið ,,græðari“. Hann hjó tá af stúlku með sporjárni í lækningaskyni og varð það tilefni kvæðisins.

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 22. júní 2018
Heimildir
  • Edda Snorra Sturlusonar. Guðni Jónsson bjó til prentunar. Íslendingasagnaútgáfan. Akureyri 1954.
  • Hugtök og heiti í bókmenntafræði. Ritstjóri Jakob Benediktsson. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands–Mál og menning. Reykjavík 1983.
  • Edda - Snorri Sturluson - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 12.9.2014).