Skip to main content

Pistlar

Heilög Margrét verndardýrlingur ljósmæðra og fæðandi kvenna

Skinnhandritið AM 433 a 12mo, Margrétar saga, er ekki nema fjórðungur af venjulegri vasabrotsbók: Það er 8 x 6,4 cm að stærð og inniheldur 45 blöð en tvö öftustu blöðin eru auð. Það var skrifað um 1500 og er enn í upprunalegu bandi, tveimur tréspjöldum sem eru fest með messingspennsli að framan. Kver bókarinnar voru fest við spjöldin með leðurreimum og spjöldin klædd með gömlu skinnblaði úr latnesku sálmahandriti en blaðið og reimarnar voru fjarlægð þegar gert var við handritið seint á síðustu öld og eru nú varðveitt í sérstakri öskju.

Handritið geymir sögu heilagrar Margrétar frá Antiokkíu en hún á að hafa dáið píslarvættisdauða í byrjun fjórðu aldar eftir að hafa staðist ásóknir hins illa greifa Ólibríusar sem vildi snúa henni frá kristinni trú og taka sér til eiginkonu. Sagan er varðveitt í meira en 50 handritum. Henni var snemma snúið úr latínu og er til í þremur gerðum.

Heilög Margrét er verndardýrlingur ljósmæðra og fæðandi kvenna í kaþólskum sið. Í sögu hennar er því lýst hvernig hún er svelgd af dreka, en með því að gera krossmark fyrir sér sprengir hún belg dýrsins og kemst lifandi út. Giftusamlega fæðingu barns má sjá sem hliðstæðu þessarar björgunar og biður heilög Margrét í bænum sínum að drottinn sjái svo um að í því húsi þar sem hennar píslarbók sé geymd verði ekkert barn „blint borið né lama né dauft né dumba né fífl“. Á Íslandi voru bækur með texta sögunnar, ásamt blaði eða kefli með latneskri bæn, bundnar við læri fæðandi kvenna til að létta þeim burðinn. Hið smáa brot AM 433 a 12mo og margra annarra Margrétar sögu handrita endurspegla þennan tilgang bókanna. Sambærilegur siður þekkist ekki á meginlandi Evrópu en íslenskar heimildir benda til að þetta gæti verið gömul heiðin hefð; í Sigurdrífumálum segir: „Bjargrúnar skaltu kunna ef þú bjarga vilt og leysa kind frá konum“.

Handritið er fremur látlaust og er ekki lýst, en upphafsstafir eru flúraðir og fyrirsagnir ritaðar með rauðu bleki. Eitt af einkennum handritsins eru allmargar skondnar spássíugreinar skrifarans þar sem hann kvartar undan leiðindum við skriftirnar („Nú þykir mér langt einum saman í skrifstofunni“) og viðmóti kvenna sem nærri honum standa. Þannig skrifar hann á einum stað: „Nú er ég hræddur við dóttur mína svo ég þori ekki annað en að skrifa bókina hennar“. Engu að síður lauk hann ekki verkinu: Blöð 29r–31r eru skrifuð af öðrum skrifara, og á blaði 31v tekur þriðji skrifarinn við og lýkur við uppskriftina.

Ef til vill voru spássíugreinar skrifarans ekki ætlaðar ókomnum kynslóðum heldur aðeins pennapróf. Neðri spássíur á blöðunum eru hlutfallslega mjög stórar svo að það getur hugsast að ætlunin hafi verið að skera neðan af þeim og þá hefðu spássíugreinarnar fokið. Svo fór þó ekki og því veitist okkur eilítil innsýn í aðstæður handritaskrifara snemma á 16. öld.   

Árni Magnússon fékk handritið árið 1704 frá Bessa Guðmundssyni, sýslumanni í Suður-Múlasýslu, er bjó lengi á Skriðuklaustri, en ýmsir notendur eða eigendur hafa skilið eftir sig spor í bókinni, þar á meðal Guðrún Sigfúsdóttir og Jón Sigfússon, sem árið 1657 merkti sér bókina bæði með latneskum og grískum bókstöfum.

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 22. júní 2018