Skip to main content

Pistlar

Gísla saga klippt og skorin — AM 445 c I 4to

Sumar fornsögur eru okkur kunnar í fleiri en einni gerð. Gott dæmi um það er Gísla saga Súrssonar en handrit hennar eru líka til vitnis um það hve varðveisla sagnanna er oft gloppótt. Gísla saga er varðveitt í heilu lagi á skinnbókinni AM 556 a 4to, sem stundum er nefnd Eggertsbók eftir einum eiganda sínum, Eggerti Hannessyni hirðstjóra (d. 1583). Önnur skinnbók með sögunni var í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn síðla á 18. öld en týndist svo. Af henni eru sem betur fer til afrit en þau voru gerð eftir að eyða var komin í söguna svo ekki er allur texti þeirrar gerðar til. Samanburður sýnir þó glöggt að hún er orðfleiri en sögugerðin í Eggertsbók, einkum er inngangur sögunnar ítarlegri og meira gert þar úr víkingaferðum. Af þriðju gerð Gísla sögu er ekki varðveitt nema brot á fjórum skertum blöðum úr gamalli skinnbók. Hún er talin hafa verið rituð á árabilinu 1390–1425 og er elsta handritið sem varðveitir texta úr Gísla sögu. Hún er varðveitt undir safnmarkinu AM 445 c I 4to.

Blöðin eru leifar af tveimur tvinnum og bera þess greinileg merki að hafa verið notuð sem hlífðarkápa utan um bók. Þetta sést á þríhyrndum skörðum sem gerð hafa verið í tvö blaðanna, tvö að ofan og tvö að neðan, svo auðveldara væri að brjóta bókfellið utan um bókina sem átti að hlífa. Texti sögunnar er skrifaður í tveimur dálkum en á fyrri tveimur blöðunum hafa ytri dálkarnir verið skornir næstum alveg af og einnig vantar á blöðin að neðan en þó einkum að ofanverðu. Á ytri spássíum sem heilar eru má sjá að markað hefur verið fyrir línum með því að rista göt í skinnið. Á nokkrum stöðum hafa verið skildar eftir eyður fyrir upphafsstafi og kaflafyrirsagnir sem ekki hafa verið fylltar.

Með blöðunum úr Gísla sögu er geymt eitt blað úr Víga-Glúms sögu. Það er með sömu hönd og sýnir að saman eru þessi blöð leifar af handriti sem geymdi fleiri en eina sögu. Samanburður á stafsetningu, dálkastærð og kjalgötum bendir til að blöð, sem nú eru hluti handritsins AM 564 a 4to og geyma meðal annars texta úr Víga-Glúms sögu, hafi komið úr sömu bók. Á aftasta Gísla sögu-blaðinu skera tvær línur með léttiskrift sig frá höndinni sem annars hefur ritað söguna. Samanburður við rithönd á nokkrum fornbréfum bendir til þess að þar sé rithönd Þórðar Þórðarsonar, prests á Höskuldsstöðum á Skagaströnd, sem einnig var ráðsmaður og officialis á Hólum um 1400. Þetta gæti bent til þess að bókin hafi verið sett saman á vestanverðu Norðurlandi. Ekkert er vitað um feril blaðanna að öðru leyti þar til Árni Magnússon skráir að hann hafi fengið þau frá Magnúsi Jónssyni í Snóksdal í Dölum 1704. Magnús var fæddur um 1675 og lést 1752 og var jörðin Snóksdalur erfðaeign hans. Forfeður hans voru gildir bændur, lögréttumenn og hirðstjórar, þar á meðal fyrrnefndur Eggert Hannesson.

Þótt harma megi meðferð og hlutskipti skinnblaðanna sem Árni fékk svo illa útleikin frá Magnúsi er rétt að hafa hugfast að þessi mikilvægu textabrot varðveittust einmitt af því að blöðin fengu annað hlutverk. Ef sú væri ekki raunin hefðum við nú enga vitneskju um þriðju gerð Gísla sögu.

Birt þann 1. júlí 2017
Síðast breytt 24. október 2023