Árna Magnússyni var í mun að eignast annálahandrit yngri sem eldri. Hann átti miðaldaannála á skinni og yngri pappírsuppskriftir, sumar gerði hann sjálfur. Hann safnaði annálasamsteypum sem gerðar voru upp úr miðaldaannálum um miðja sautjándu öld, gerði gagnmerkar athuganir á þeim og reif í sundur þær sem honum þótti leiða eftirkomendurna í villu. Hann safnaði annálum eftir sautjándu aldar höfunda en missti það safn í eldsvoðanum í Kaupmannahöfn haustið 1728.
Handritið, AM 415 4to, sem hér sést er 12 blaða fróðleiksbók á skinni, skrifuð í upphafi fjórtándu aldar af klerklærðum mönnum á vestanverðu landinu. Óvíst er hvaðan Árni fékk það, en hann hélt að það hefði verið í höndum Brynjólfs Sveinssonar Skálholtsbiskups. Skrifarar eru fimm og skrifar einn mest. Skinnið er lungamjúkt, blekið moldbrúnt, skriftin falleg munkaskrift í beinum línum, á blaðjöðrum eru göt, sett til þess að marka línur með stíl. Eitt blaðið er minnst, hin jafnstór, en af tveimur fremstu blöðunum eru ekki eftir nema ræmur. Á þeim var latneskur kveðskapur og fróðleiksgreinar og íslenskt fjarðatal sem nefndi 111 firði umhverfis landið. Þá fer páfatal, kafli um stjörnubókarfræði og Stjörnu-Oddatal. Því næst kemur annáll frá árinu 1 eftir Krist til 999 og yfir árin 1270–1313. Eyða var skilin eftir til að fylla í tímabilið 1000–1269, en efnið barst ekki og eyðan því fyllt með alfræðiefni. Næst er norskt-íslenskt biskupa- og ábótatal, norsk fylkjanöfn, langfeðgatal konunga Norðmanna, Dana og Svía og loks brot úr Hamborgarsögu.
Annállinn í handritinu kallast Forni annáll. Hann er einn fjögurra elstu íslenskra miðaldaannála. Þeir eru náskyldir að efni en hver hefur sérefni. Einn skrifari hefur skrifað mestallan Forna annál, en undir lokin taka tveir aðrir við. Tímatalið styðst við páskaöld, árin eru mörkuð eftir venju íslenskra miðaldaannálaritara með sunnudagsbókstöfum og prikstöfum, en ártöl frá fæðingu Krists skrifuð arabískum tölustöfum með 20 ára millibili. Myndin sýnir tímabilið 565–769. Árunum er raðað í fjóra dálka og lítið rými fyrir hvern atburð. Helst er getið um stjórnarár páfa, ennfremur merkisatburði eins og andlát Beda prests sem fyrstur reiknaði út tunglöld og fæðing Karlamagnúsar keisara og upphaf hans ríkis. Næstneðst í dálkinum lengst til vinstri er skrifað við árið 690: „vígt Pantheon í Róma.“ Litlu neðan við miðju í dálkinum lengst til hægri segir við árið 751: „Sprakk í sundur jörð í Mesopótamía og kom þar upp eitt kvikindi vaxið sem múll [þ. e. múlasni] og sagði fyrir með manns röddu ágang þjóða úr eyðimörk í Arabíu.“ Annálaritarinn setur fyrstu línuna við viðeigandi ár en framhaldið skrifar hann í fjórum línum ofan yfir fyrstu línunni til þess að atburðurinn falli á rétt ár.
Árni Magnússon skrifaði upp íslenska fjarðatalið og annálinn eftir þessu handriti og ber uppskriftin safnmarkið AM 426 4to (65 blöð á pappír). Hann sleppti dálkagerð frumritsins, skrifaði textann á vinstri handar síður en hélt hægri síðum auðum til að setja þar eigin athugagreinar. Hann setti ártölin undirstrikuð fremst á spássíu, hélt bókstöfunum, leysti upp úr böndum og hélt stafsetningu skrifara, skrifaði engilsaxneskt f og gerði mun á d og ð sem ekki var háttur á hans tíma.
Handritin eru varðveitt í Reykjavík.
Síðast breytt 25. júní 2018