Skip to main content

Pistlar

Ágrip af Noregskonungasögum – AM 325 II 4to

 

Þessi litli, kubbslegi fjórblöðungur (u.þ.b. 15 x 13 cm), sem var skrifaður á skinn í byrjun þrettándu aldar, er ekki mikið fyrir augað, en mikilvægi hans fyrir sögu norrænna bókmennta er mun meira en útlitið gefur tilefni til að ætla: hér er komið eina varðveitta eintakið af Ágripi af Noregskonungasögum, sem er elsti texti á norrænu um sögu Noregskonunga, settur saman um 1190 að því er talið er.

Þótt handritið sjálft sé örugglega íslenskt, hefur upprunalegi textinn að öllum líkindum verið skrifaður í Noregi. Um þetta vitna nokkur norsk máleinkenni, svo og ýmis viðurnefni sem eru ólík þeim sem varðveist hafa í íslenskum heimildum. Ólíkt flestum höfundum norrænna fornsagna virðist höfundur Ágrips ekki hafa haft mikinn áhuga eða þekkingu á Íslandi og Íslendingum. Auk þess misskilur hann kenningu í dróttkvæðri vísu, nokkuð sem haldið hefur verið fram að „enginn menntaður Íslendingur á þeim tíma“ hefði gert.

Handritið er nú 25 blöð en textinn er því miður ekki heill, vantar bæði upphaf og endi á, jafnframt því sem tvær eyður eru í seinni hlutanum. Eins og það er nú varðveitt nær Ágrip yfir sögu Noregs frá dauða Hálfdanar svarta um 880 þar til Ingi krókhryggur verður konungur 1136, en upphaflega gerðin er talin hafa hafist er Hálfdan kom til valda og náð til valdatöku Sverris Sigurðarsonar 1177, á sama hátt og Heimskringla og Fagurskinna.

Áhrif Ágrips á síðari konungasögur eru nokkuð ljós: það varð þekkt á Íslandi fljótlega eftir samningu og Snorri notar það í Heimskringlu sinni. Menn hafa á hinn bóginn deilt um það hvaða heimildir höfundi Ágrips voru tiltækar og einkum velt fyrir sér sambandi textans við tvö latínurit um sögu Noregs. Höfundur Ágrips er talinn hafa nýtt sér rit Þóris munks, Historia de Antiquitate Regum Norwagiensium og þýtt kafla úr því orðrétt, en tengslin við hitt verkið, Historia Norwegiæ, virðast best skýrð með því að Ágrip og Historia Norwegiæ byggi á sömu heimild.

Stíllinn á texta Ágrips er fremur stirður og einkennist af fjölda aukasetninga og samsettra setninga sem eru svo flóknar að oft er erfitt að átta sig á merkingunni. En með tilliti til aldurs textans og þess að hér er um að ræða eina fyrstu tilraun sem varðveist hefur til að skrifa samfelldan texta á norrænu er það kannski ekki svo undarlegt. Um leið er að finna í textanum málsgreinar þar sem beitt er stílbrögðum sem sýna greinilega að höfundurinn hefur verið lærður maður. Snorra Sturlusyni, þeim mikla stílista, virðist að minnsta kosti hafa fundist þessi texti svo góður að hann hefur tekið málsgreinar að láni og notað nokkurn veginn orðréttar í Heimskringlu sinni. Það á sérstaklega við um frásögnina af því hvernig Snæfríður, dóttir Svása, heillar Harald konung hárfagra.

Þetta einstaka rit fékk Árni Magnússon frá sr. Þórði Jónssyni á Staðastað árið 1707 eða þar um bil. Á seðli sem fylgir handritinu gerir Árni svofellda grein fyrir eigendasögu þess: „Eignarmenn þessa fragments hafa nýlegast verið Þorgeir Jónsson. Jón Hákonarson. Þórður Jónsson. Ég.“ Í minnisgreinum Árna kemur ennfremur fram að Þorgeir, sem var lögréttumaður í Kjósarhreppi og síðar ráðsmaður á Hólum, hafi eignast handritið laust fyrir árið 1700 en að áður hafi það alllengi verið í eigu sömu ættarinnar, afkomenda Vigfúsar Jónssonar (d. 1595) sýslumanns í Kjós.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 28. júní 2018