Skip to main content

Pistlar

Af Þóru Þorsteinsdóttur handritaskrifara

Svo virðist sem skriftarkunnátta kvenna fyrr á tíð hafi einkum nýst þeim til bréfaskrifta og til að skrifa undir skjöl og gerninga. Sárafá dæmi eru um handritaskrifara í röðum þeirra fyrir miðja 18. öld. Fáein handrit hafa þó verið nefnd til sögunnar sem sennilegt má telja að séu með hendi kvenna. Elsta dæmið um að kona skrifi handrit er af Þóru (f. 1640), dóttur síra Þorsteins Björnssonar að Útskálum. Jón Halldórsson prófastur í Hítardal segir að Þorsteinn hafi menntað Þóru í reikningskúnst og fleiri lærdómslistum (Guðrún Ása Grímsdóttir 1996:228). Á gamalsaldri varð Þorsteinn blindur og naut þá aðstoðar dóttur sinnar:

Til þess hann kinne nu ad lina leidinde lÿfsins, blindur ordinn, dicterade hann sinne einu dottur sem hann ätte skilfeingna Latinskt kvæde sem hann kallade Noctes Setbergenses, umm anda og Alfa og þess hattar vofur, fullt af hiätru, so sem adrer hafa sagt mier, þesse qvæde skulu vera þriu i bökahyrdslu Arna M(agnus)S(onar) [...] (Páll Vídalín 1985:144–145)[1]

Merkingin í dicterade er sú að hann les henni fyrir og hún skrifar niður.[2] Það að Þóra skrifi eftir föður sínum latneskt kvæði táknar ekki einasta að hún hefur verið æfður skrifari, hún hefur líka kunnað latínu. Handritin AM 121 fol og AM 158 fol eru bæði talin með hendi Þorsteins. Allt önnur hönd er á AM 703 I 4to sem geymir áðurnefnt kvæði hans. Fangamark Þorsteins „THB“ er aftan við uppskriftina og táknar höfundarnafn, ekki skrifara. Í kvæðinu kemur fram að Þorsteinn er blindur og því er uppskriftin ekki hans. Eina samtímauppskrift kvæðisins er sú í 703 I 4to. Í Landsbókasafni er hins vegar varðveitt uppskrift Páls Eggerts Ólasonar frá 1913 sem hann skrifaði eftir 703 (Lbs 1652 4to).

Þorsteinn tileinkaði kvæðið síra Þorkatli Arngrímssyni presti í Görðum á Álftanesi. Við samanburð á 703 I 4to og latneskum bréfum sem skrifuð voru af Þorkatli (AM 380 fol) kom í ljós að hönd Þorkels er ekki á handritinu. Þóra er sú eina sem við höfum heimildir um að skrifi kvæðið upp. Allt bendir því til að hér sé komin uppskrift Þóru og þá sennilega hreinrit hennar, en uppskriftin sýnir æfðan skrifara. Vera kann að Þóra hafi fyrst skrifað kvæðið eftir föður sínum, hreinritað það og fært Þorkatli. Frá honum hafi varðveitt uppskrift kvæðisins síðan borist í eigu Árna Magnússonar. Ártalið 1672 kemur fyrir í kvæðinu sem bendir til að handritið sé skrifað einhvern tímann á árunum 1672 og 1675, en þá lést Þorsteinn.

Þorsteinn var mikill lærdómsmaður en virðist hafa verið svolítið sérkennilegur. Töldu ýmsir kvæði hans Noctes Setbergensis uppfullt af hindurvitnum og hann sjálfan hjátrúarfullan og dramblátan. Espólín segir t.d.:

Hann lét lesa sér þat til skemtunar síðan, er voru í mörg hindrvitni, ok lifdi eptir þat mjög lengi, ok samdi sjálfr grafskrift sína harla stórláta ok drambfulla, taldi þar í lærdóm sinn ok fródleik framm yfir allra eda flestra annara manna. (1828:25)

Peter Springborg sem rækilega hefur fjallað um Noctes Setbergensis segir hins vegar:

Hvis man læser en fremstilling af 1600-tallets kulturforhold som P.E. Ólasons, vil man finde digtene karakteriseret som noget overtroisk vås (hjátrúarrugl). Men tager man forfatteren på ordet og digtene alvorligt, fremtræder de som en fuldgyldig repræsentant for renæssancen på Island, og de er med deres bevidste blanding af hjemligt og fremmed stof overordentlig interessante ud fra flere synsvinkler, skolehistorisk, mentalitetshistorisk, litteraturhistorisk m.v. (1991:169–170)

Þorsteinn átti tvö skilgetin börn, Þóru og Jón (f. 1645), sem nam í Skálholtsskóla en dó ungur. Ef marka má heimildir hefur Þorsteini ekki aðeins verið umhugað um eigin lærdóm og sonarins, hann hefur einnig látið sér annt um menntun einkadótturinnar. Konur sem ólust upp á heimilum þar sem bókamennt var í hávegum höfð gátu þannig öðlast menntun til 

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Guðrún Ása Grímsdóttir. 1996. Um íslensku prestskonuna á fyrri öldum. Konur og kristsmenn. Þættir úr kristnisögu Íslands, s. 215‒247. Ritstj. Inga Huld Hákonardóttir. Reykjavík.
Jón Espólín. 1828. Íslands Árbækur VII. Ljósprentað árið 1947 eftir útgáfunni sem kom út í Kaupmannahöfn. Reykjavík.
Páll Vídalín. 1985. Recensus poetarum et scriptorum Islandorum hujus et superioris seculi. Útg. Jón Samsonarson. Íslensk bókmenntasögurit. Reykjavík.
Springborg, Peter. 1991. Nætter på Island. Latin og nationalsprog i Norden efter reformationen. Konference 1.–5. august 1987, Biskops-Arnö. Ritstj. Marianne Alenius, Birger Bergh, Ivan Boserup, Karsten Friis-Jensen og Minna Skafte Jensen. Kaupmannahöfn.

 

[1] Í meginmáli er þýðing síra Þorsteins Péturssonar á Staðarbakka með viðbótum hans. Hér er uppskrift Hálfdans Einarssonar rektors:

Hic ut fastidia vitæ leniret, captus oculis, filiæ, qvam legitimam unicam habuit, dictavit latinum carmen, qvod inscripsit Noctes Setbergensis, de geniis Alfisqve & id genus Spiritibus omni superstitione refertissimum, ut ex aliis didici. Nec enim Magiæ Suspicionem effugit, vir cætera, qvod audiverim innoxiæ vitæ. (1985:145)

[2] Peter Springborg er sama sinnis (1991:158).