Skip to main content

Pistlar

aðkomumaður

Aðkomumenn og annað fólk

Sumum orðum verður best lýst með því að sýna og skýra samhengi þeirra við önnur orð. Það á að nokkru leyti við um orðið aðkomumaður, sem að vísu má segja að skýri sig sjálft þegar litið er til orðhlutanna sem það er myndað úr. En tengsl þess við merkingarskyld orð skerpa myndina og veita athyglisverða innsýn í samstætt orðafar.

Orðin aðkomumaður og aðkomufólk fela í sér eins konar andspæni við þá sem fyrir eru sem heimamenn, sem eftir atvikum geta verið í búningi orða eins og íbúarheimilisfólkhéraðsbúarþorpsbúar, bæjarbúar og borgarbúar. En andspænið getur líka falið í sér sögulegan þátt, eins og fram kemur gagnvart orðunum innfæddir og frumbyggjar.

Þeir sem við tilteknar aðstæður eru aðkomumenn á einhverjum stað geta við breyttar aðstæður orðið þar heimamenn, þegar stutt dvöl og ókunnugleiki hefur umbreyst í fasta búsetu með tilheyrandi kunnugleika. Mestu skiptir að framandleikinn í augum heimamanna sé ekki lengur til staðar, eiginleiki sem reyndar kemur enn skýrar fram í orðinu ókunnugir.

Inn í þessa mynd má draga fleiri orð um hópa manna sem út frá tilteknu sjónarmiði og við vissar aðstæður mynda samstæða en gjarna hverfula heild. Orðin vegfarendurferðalangar og ferðamenn taka öll mið af tímabundnum aðstæðum þeirra sem í hlut eiga og hafa á sér hlutlausan blæ. En þarna bregður líka fyrir öðrum hópum með neikvæðari blæ, sem gjarna blandast við aðkomumenn og eiga sér orð eins og betlararflækingarlausingjarslæpingjar og utangarðsmenn.

Í næsta nágrenni við aðkomumenn eru svo orð með ögn skýrari afmörkun, utanhéraðsmenn, utansveitarfólk, nærsveitungar.

Ýmis orð í yngra máli eiga sér forliðinn aðkomu-. Í ritheimildum verður þeirra fyrst vart í lok 18. aldar. Í orðabók Björns Halldórssonar er orðið aðkomusótt og fær dönsku skýringuna ‘Sygdom, som er indkommen fra fremmede Steder’. Frá líkum tíma er dæmi um orðið aðkomufé í ritmálssafni Orðabókar Háskólans en elstu dæmi um orðið aðkomumaður þar eru frá miðri 19. öld.

Það orðafar sem hér um ræðir kallast einnig á við forliðinn aðskota-, sem vísar til einhvers sem er framandi og á ekki heima í tiltekinni heild eða samhengi.  Þar er framandleikinn oft blandinn neikvæðri afstöðu og tortryggni. Orðið aðskotamaður andar heldur köldu í eftirfarandi ummælum í Vísi frá árinu 1933:

  • Eg hefi sannfrétt, að fjöldi utanbæjarmanna hafi sótt, og kemur auðvitað ekki til nokkurra mála, að þeir komi til greina í stöður þessar.  Nóg er samt af atvinnuleysi hér og nógu oft er stjórn þessa bæjar búin að taka aðskotamenn upp á sína arma.

Í grein í Skírni árið 1896 er rætt um Búastríðið og viðureign Búa við útlendinga í landinu:

  • Segjast eiga þjóðlega tilveru sína og sjálfstœði að verja, og sé það því nauðvörn ein fyrir sig, að gera aðskotamönnumsem örðugast fyrir að öðlast þegnrétt.

Enn harðari tónn er gjarna í orðinu aðskotadýr. Í Austra árið 1884 er lýst áhyggjum Seyðfirðinga af ásókn í fiskimið heimamanna:

  • Er allur fjöldi þeirra manna er þessa veiði stunda, og þannig þrengja að aðalbjargræðisvegi innsveitismanna, farfuglar, sem flýja með vetrarkomu, mestpart útlendingar, er nálega engir gjalda einn eyri til sveitarinnar. Hvar mun lenda, þegar útlend og innlend aðskotadýr hafa komið Seyðisfirði á kaldan klaka? Þau munu vart bíða til að fæða vesalingana, sem þau hafa komið á hreppinn. 

Í Fjallkonunni árið 1899 eru ágengir útlendingar aftur til umræðu, nú agentar sem í umboði erlendra auðmanna leita eftir samningum um að nýta afl íslenskra fossa og aðrar íslenskar auðlindir:

  • Menn ættu alvarlega að varast að láta þessi útlendu aðskotadýr ná nokkru tangarhaldi á þessum auðsuppsprettum, sem orðið geta ómetanlegar landinu innan fárra ára. 

Orðið aðskotadýr lifir enn góðu lífi en það má telja til marks um aukna víðsýni og hófstillingu að sú notkun þess sem hér kemur fram þætti nú vart við hæfi í opinberum skrifum.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir