Stjórn Rannsóknasjóðs hefur lokið við úthlutun styrkja til nýrra rannsóknarverkefna fyrir árið 2021, stærstu úthlutun sjóðsins frá upphafi. Alls bárust 402 gildar umsóknir í Rannsóknasjóð og voru 82 þeirra styrktar eða rúmlega 20% umsókna og þar af eru fjórir verkefnisstyrkir á sviði hugvísinda og lista. Helmingur þeirra tengist verksviði Árnastofnunar. Annars vegar hlaut Margrét Eggertsdóttir styrk fyrir rannsókn sína sem nefnist „Hið heilaga og hið vanheilaga. Viðtökur og dreifing veraldlegra og trúarlegra bókmennta eftir siðaskipti á Íslandi“. Samstarfsfólk hennar í verkefninu eru Aðalheiður Guðmundsdóttir, Karl Óskar Ólafsson, Katelin Marit Parsons, Lea Debora Pokorny og Pétur Húni Björnsson. Hins vegar voru það Einar Freyr Sigurðsson og Jim Wood sem hlutu styrk fyrir rannsóknir sínar á samfalli þar sem mörk setninga- og orðmyndunarfræði eru athuguð.
Nýdoktorsstyrk hlaut Hjalti Snær Ægisson fyrir verkefni sitt um Bessastaðaþýðingar.
Tveir doktorsnemar tengdir Árnastofnun hlutu einnig styrki. Nikola Machácková fyrir rannsókn sem nefnist „Egils rímur og „Yngri Egla““. Efni verkefnisins eru birtingarmyndir Egils sögu, Egils rímur frá miðri sautjándu öld, og „Yngri Egla“, prósaverk sem er að miklu leyti byggt á rímunum og á C-texta miðaldasögunnar. Varðveisla og endursköpun texta þessarar vinsælu sögu á sautjándu og átjándu öld getur gefið okkur innsýn í viðtökur sögunnar, samfélag þessa tíma og hinn breytilega bókmenntasmekk í þjóðfélaginu. Leiðbeinandi er Svanhildur Óskarsdóttir.
Jonas Koesling hlaut einnig styrk fyrir rannsókn sem nefnist „Hafið í forníslenskri menningu: vistfræði og skilvit í sambandi manna og sjávar á Íslandi á miðöldum“ en leiðbeinandi hans er Emily Lethbridge.
Við óskum styrkhöfum okkar til hamingju.