Skip to main content

Röskun verður á þjónustu Árnastofnunar næstu mánuði. Sjá nánar.

Viðburðir

Þrjátíu ár frá útgáfu Korku sögu eftir Vilborgu Davíðsdóttur

23.11.2023 - 16:30 to 23.11.2023 - 18:00

Edda,
Arngrímsgötu 5,
107 Reykjavík,
Ísland

Um þessar mundir eru 30 ár frá útgáfu Korku sögu eftir Vilborgu Davíðsdóttur. Af því tilefni efnir Forlagið til málþings í fyrirlestrasal Eddu í samstarfi við Árnastofnun fimmtudaginn 23. nóvember kl. 16.30.

Fjórir fyrirlesarar munu stíga á stokk, þar á meðal höfundur bókarinnar.

 

Dagskrá

Korka og endurnýjun hugarfarsins

Gísli Sigurðsson, rannsóknarprófessor við Árnastofnun.

Í sögu Korku fer Vilborg inn í þann sagnaheim sem margir lásu lengi vel með sjónarhorni þeirra yfirstéttarkarla sem réðu mestu um hvað væri skrifað og hvernig – og varð til þess að stundum var talað um fólk hér á landi eins og það væri eingöngu komið af aðdáunarverðum karlkyns höfðingjum frá Noregi. Með yfirgripsmikilli heimildavinnu og viðsnúningi á þessu sjónarhorni endurnýjar Vilborg erindi fornaldarinnar við okkur með því að láta lesendur sína hugsa um þessa löngu liðnu tíð á nýjan hátt sem breytir því hvernig hægt er að tala um hana – og ekki síður hvernig ekki er hægt að tala um hana.

Korkukennsla í máli og myndum

Guðrún Sesselja Sigurðardóttir, íslenskukennari í Seljaskóla.

Guðrún Sesselja fjallar um hvernig íslenskukennarar í Seljaskóla hafa unnið með Korku sögu í kennslu 10. bekkjar sl. sjö ár. Hún mun tala um hvernig áherslur í kennslunni hafa breyst á þessum sjö árum, fjalla um þær umræður sem iðulega skapast við lestur bókarinnar og kynna verkefni sem lögð eru fyrir úr bókinni. Hún beinir sérstaklega sjónum að lokaverkefninu sem er myndasöguverkefni unnið upp úr allri bókinni.

Korka og ég

Bergþóra Guðmundsdóttir, kennaranemi og leiðbeinandi í Hörðuvallaskóla.

Bergþóra fjallar um hvernig saga Korku breytti áhuga hennar á námi þegar hún las hana fyrst vorið 1994 í íslensku í framhaldsskóla. Hún lýsir því hvernig bókin varð síðan kveikjan að B.Ed.-ritgerð hennar í grunnskólakennarafræði um samþætt þemanám, eftir að hafa starfað í sérdeild í áratug og séð þessa sögu með augum nemenda þar. Í ritgerðinni sýnir hún hvernig hægt er að vinna með Korku sögu og meta hæfni nemenda þvert á námsgreinar með því að blanda saman íslensku, samfélagsfræði, stærðfræði, dönsku og fleiri námsgreinum. Einnig ræðir hún hversu vel þessi dásemdarsaga nýtist með slíkri kennsluaðferð í skóla án aðgreiningar.

Ambátt bíður dauða síns

Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur.

Korka Þórólfsdóttir birtist höfundi sínum skyndilega og lá mikið á hjarta enda beið hún dauða síns að morgni, hafði í fangi sér lítið telpukorn sem var þó ekki hennar sjálfrar. Vilborg Davíðsdóttir ætlar að segja frá því hvernig það bar til og hún neyddist í framhaldinu til að lesa Íslendingasögu í fyrsta sinn, læra að gera skyr, botna í rúnaþætti Hávamála, og finna einu bókina um Suðureyjar sem til var á Íslandi. Og svo er það sagan af þrælnum sem var leiddur burt og höfuð hans höggvið af, í boði Snorra og Noregskonungs.

 

2023-11-23T16:30:00 - 2023-11-23T18:00:00
-