Skip to main content

Viðburðir

Málstofa: Eva María Jónsdóttir

18. mars
2016
kl. 15.30–17
Eva María Jónsdóttir. Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson.
Eva María Jónsdóttir. Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson.

Málstofa: Eva María Jónsdóttir
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
18. mars kl. 15:30
Árnagarði við Suðurgötu, stofu 311

Eva María Jónsdóttir, vef- og kynningarstjóri Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, er fyrirlesari í þriðju málstofu vormisseris. Erindi Evu Maríu byggist á meistararitgerð hennar í miðaldafræði sem fjallar um þrjár gerðir rímna af Gretti Ásmundarsyni. Elstu rímurnar eru frá 15. öld en höfundur þeirra er ókunnur. Kolbeinn Jöklaraskáld Grímsson orti rímur af Gretti á 17. öld, sem varðveittar eru í handritinu AM 611d 4to. Fyrstu fimm rímurnar hefur Eva María skrifað upp stafrétt og gefið út í ritgerðinni. Yngsta rímnagerðin er frá 19. öld. Magnús í Magnússkógum sem þær orti var mikilvirkt rímnaskáld á fyrri huta 19. aldar og bendir höfundarverk hans til að hann hafi mestmegnis ort eftir pöntun. Í málstofunni ræðir Eva um mismun rímnanna, en verkefnið gekk m.a. út á að skoða skáldamálið, efnistök, meðferð vísna og snjallyrða í þessum þremur gerðum rímna frá þremur mismunandi öldum. Hvort rímnaformið sé nægilega opið til að birta einhverskonar aldarfarslýsingu er ein af spurningunum sem leitast er við að svara.

2016-03-18T15:30:00 - 2016-03-18T17:00:00