Málstofa: Úlfar Bragason
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
2. desember 2016 kl. 15.30
Árnagarði við Suðurgötu, stofu 422
„Ég álít mikið betra að búa hér en heima.“
Ameríkubréf Jóns Halldórssonar frá Stóruvöllum
Jón Halldórsson, sem kenndi sig við Stóruvelli í Bárðardal (1838–1919), var meðal fyrstu Íslendinganna sem fluttust vestur um haf og gerðust landnemar í Ameríku. Í bókinni Atriði ævi minnar (2005) safnaði fyrirlesarinn saman úrvali bréfa og greina sem Jón Halldórsson lét eftir sig. Þetta er ekki heildarsafn þess sem vitað er að Jón skrifaði, sumt hefur glatast, annað ekki fundist og öðru var sleppt við útgáfu. Væntanleg er bók fyrirlesarans um bréf, greinar og dagbók Jóns og ljósmyndir af honum og fjölskyldu hans. Í fyrirlestrinum verður fjallað um gagnrýni Jóns á íslenskt bændasamfélag á 19. öld og þá möguleika sem hann taldi sig hafa fengið til betra lífs með því að flytjast til Bandaríkjanna.
Úlfar Bragason er rannsóknarprófessor við alþjóðasvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.