Skip to main content

Viðburðir

Jón Hilmar Jónsson: Textasamleið og merkingarvensl ― vitnisburður parasambanda

8. maí
2015
kl. 15.30–17
Jón Hilmar Jónsson

Málstofa: Jón Hilmar Jónsson
Neshaga 16, 3. hæð
8. maí 2015, kl. 15.30


Jón Hilmar Jónsson, rannsóknarprófessor á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, flytur erindi á málstofu stofnunarinnar föstudaginn 8. maí, kl. 15.30. Erindi sitt nefnir hann „Textasamleið og merkingarvensl ― vitnisburður parasambanda“.

Í almennum orðabókum er lýsing einstakra orða í vaxandi mæli studd vitnisburði um orðanotkun í texta og tali. Sá stuðningur er hins vegar ekki eins áþreifanlegur í þeim orðabókum sem lýsa orðaforðanum sem heild, innbyrðis samhengi hans og merkingarvenslum orðanna. Það skýrist að nokkru leyti af því hversu þröngar skorður hugtaka- og samheitaorðabókum í prentuðum búningi eru settar. Með því að búa um lýsinguna í stafrænni mynd má sækja skýrari vitnisburð til orðanotkunar í textasamhengi og þar með ná fram fyllri og fjölþættari lýsingu.

Í Íslensku orðaneti gegnir vitnisburður textasafna um orðanotkun virku og mikilvægu hlutverki. Sérstök athygli hefur beinst að parasamböndum (hliðskipuðum samböndum, tengdum með og), gildi þeirra við að draga fram merkingarskyldan orðaforða og greina merkingarvensl innan hans. Parasambönd eru víða áberandi í rituðum texta og setja mark sitt á notkun allra meginorðflokka. Þau koma jafnt fram með stökum orðum og orðasamböndum og styrkja með því stöðu merkingarbærra orðasambanda sem fullgildra orðabókareininga til jafns við stök orð. Aðild parasambanda að merkingar- og hugtakamiðaðri orðabókarlýsingu stuðlar að markvissri efnisöflun, greiðir fyrir vísunum milli venslaðra eininga og skapar nýjar greiningarforsendur sem lúta að styrk merkingarvensla og merkingarlegri nálægð.

2015-05-08T15:30:00 - 2015-05-08T17:00:00