Maó Alheimdóttir heldur erindi í fyrirlestrasal Eddu 18. febrúar kl. 15–16. Erindið er hluti af fyrirlestraröðinni Annars hugar.
Maó Alheimsdóttir skrifar á íslensku þó að móðurmál hennar sé pólska. Hún er með BA-próf í námsgreininni Íslenska sem annað mál með almenna bókmenntafræði sem aukagrein og er jafnframt með MA-gráðu í ritlist frá Háskóla Íslands. Maó hefur einnig stundað nám í norrænum fræðum við Sorbonne-háskóla í París. Handrit að skáldsögu hennar „Veðurfregnir og jarðarfarir“ hlaut Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta árið 2021. „Veðurfregnir og jarðarfarir“ kom út árið 2024 og er fyrsta skáldsagan sem frumsamin er á íslensku af höfundi sem lærði íslensku á fullorðinsaldri. Verk eftir Maó hafa birst í tímariti Máls og Menningar, Heimildinni og verið flutt í Ríkisútvarpinu. Maó hefur undanfarið unnið að íslenskri þýðingu á ljóðum Rómaskálds Papúsza fyrir bók sem væntanleg er og verður gefin út hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur.