Miðvikudaginn 24. apríl kl. 16–17 verður þriðji fyrirlesturinn í fyrirlestraröðinni Annars hugar haldinn í fyrirlestrasal Eddu. Fyrirlestraröðin er haldin á vegum námsgreinarinnar Íslenska sem annað mál í samstarfi við Árnastofnun og Málvísindastofnun. Fyrirlesararnir sem allir eru rithöfundar og skáld og skrifa á íslensku sem öðru máli munu segja frá sjálfum sér og lesa upp úr verkum sínum.
Fyrirlesari að þessu sinni er Dr. Angela Rawlings.
Dr. Angela Snæfellsjökuls Rawlings er kanadískt-íslenskt skáld og listrannsakandi sem notar tungumál sem aðalefnivið. Angela fjallar í fyrirlestri sínum um það að „jökla“ á tímum loftslagshamfara og um jökla í eigin skrifum og listsköpun. Angela segir meðal annars frá yfirstandandi framboði Snæfellsjökuls til forseta Íslands sem er listræn íhlutun í stjórnmálin. Fyrirlesturinn verður fluttur á íslensku og ensku.
Léttar veitingar og spjall að erindi loknu.