Bjúgrend, hvelfd og kúpt er kringlan unga,
kringlótt er byggingin hvað sem hún skal heita.
Kringlótt er fjöreggið, kringlótt er íslensk tunga,
kringlan er heimsins með orðin sem ֦„yndið veita“.
Ég hugsa um funann þann forna sem kveikti bálið,
um fræðamann, skáld og ömmu sem ljóðin kunni,
um frásagnargleði sem verndaði móðurmálið
– megi það tendra allt lífið í byggingunni.
Hljóðfæri Guðs og Hallgríms Péturssonar:
hásumarblómi og súgur í klettasprungu,
harðærisvetur og hörpunnar tónn sem vonar
hljóminn þinn skópu og læstu á hverja tungu.
Samhengi þitt er sjaldgæft á meðal þjóða:
að söngur þess manns sem óð hér að landi fyrstur
er samur að lagi og listarapparans góða,
laufið er nýtt en forn er þess greinarkvistur.
Að yrkja sitt mál er mannúðin sjálf í verki.
Að meitla sín orð er gjöf til allra manna,
líkt og af trénu flettir þú feysknum berki
og finnir þar efnivið lífsins, hinn hreina og sanna.
Lágreist voru húsin og lengstum moldarkofar
en ljóðið og sagan var höll þín með drekkhlöðnum borðum.
Og enn verður hús þitt sá andi sem leitar ofar
og yrðir það starf sitt með bóndans og sjómannsins orðum.
Herskip eitt kom hér, hlaðið með eldgömlu skinni;
hálf öld er síðan þjóðin varð sjálfstæð í anda.
Mál þeirra bóka var málið í hjartanu inni;
mættust þar gullöld og frelsi í sál vorra landa.
Þetta er fjöreggið hússins sem hérna stendur,
heilagar landvættir verndi það alla daga.
Til hamingju Ísland og heill þér Íslendingur,
heilar um aldir systurnar Edda og Saga!
Bergsveinn Birgisson