Skip to main content

Pistlar

Talað mál í orðasöfnum og -bókum

Sennilega er ekkert eins mikilvægt í samfélagi mannanna eins og munnleg samskipti. Flest eigum við í daglegum samskiptum við fjölskyldumeðlimi, vinnufélaga og ýmsa aðra sem á vegi okkar verða í dagsins önn. Samtöl geta verið af ýmsum toga. Stundum er úrlausnarefnið afmarkað og hlutverkaskiptingin skýr eins og t.d. þegar við förum á heilsugæslu til að leita svara við heilsufarsmálum eða þegar við förum út í bakarí til að kaupa eitthvað með kaffinu. En oft er tilgangur samtala aðeins félagslegur og markmiðið óljóst. Við rekumst á vini úti á götu eða hringjum í fjölskyldumeðlim til að heyra í þeim hljóðið. En þrátt fyrir mikilvægi munnlegra samskipta hafa orðabókafræðingar gefið samtölum lítinn gaum. Íslenskar orðabækur, eins og orðabækur annarra evrópskra mála, byggjast nefnilega fyrst og fremst á rituðum heimildum og leggja því aðallega áherslu á að lýsa orðanotkun í ritmáli.

Sögulegar heimildir um talmál

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að orðabókafræðingar á Orðabók Háskólans, forvera Árnastofnunar, lögðu sitt af mörkum til að fanga orðaforða talaðs máls á 19. og 20. öld. Árnastofnun geymir stórt seðlasafn sem ber heitið talmálssafn Orðabókar Háskólans. Safnið er að meginhluta sprottið af útvarpsþættinum Íslenskt mál sem var á dagskrá Ríkisútvarpsins í hálfa öld. Í þættinum var spurningum um orð og merkingar komið á framfæri við hlustendur víða um land sem höfðu svo samband sím- eða bréfleiðis. Umsagnir heimildarmanna voru svo færðar á seðla og raðað í stafrófsröð.

Þrjár raðir af litlum trékössum í hillu. Á kössunum eru litlir merkimiðar með stöfum og númerum og upp úr kössunum stingast pappírsmiðar.
Mynd 1: Talmálssafn Orðabókar Háskólans.
SSJ

Í talmálssafninu má finna dýrmætar upplýsinga sem er hvergir annars staðar að finna, m.a. um staðbundið mál og orðaforða sem sjaldan rataði á prent, til að mynda orð tengd gömlum starfsháttum. Stærsti hluti orðaforðans eru því nafnorð, lýsingarorð og sagnir. Lítið er um upphrópanir og önnur smáorð í seðlasafninu sem þýðir þó ekki að slík orð hafi ekki verið notuð í eldra máli. Orðin hafa einfaldlega ekki vakið athygli skrásetjara og heimildarmanna.

Í talmálssafninu má þó finna dæmi sem gefa okkur einstaka innsýn í hversdagsleg samtöl fyrri tíma. Á mynd 2 má sjá seðil úr talmálssafninu sem geymir umsögn um upphrópunina getta eða gætta. Heimildarmaður frá Ísafirði skýrir orðið svo í sendibréfi árið 1960:

„Getta sko! Táknaði nokkurs konar undrun, t.d. um fréttir eða eitthvað nýtt, sem fólk hafði ekki heyrt áður eða séð. Það var eldra fólk, sem sagði þessi orð, og þau dóu með þessu fólki að mestu eða öllu.“

 

Handskrifaður seðill, efst stendur "Getta eða gætta".
Mynd 2: Seðill úr talmálssafni OH, 65 ára Ísfirðingur, sendibréf dags. 28.1. 1960.

Unnið er að því á Árnastofnun að gera talmálssafnið aðgengilegt á stafrænu formi.

Upptökutæknin kemur til sögunnar

Með tilkomu upptökutækni breyttust forsendur talmálsrannsókna til mikilla muna. Í stað þess að hlusta og skrifa niður dæmi eftir minni geta málfræðingar í dag tekið upp samtöl og hlustað á þau aftur og aftur. Stafræn tækni gerir okkur svo kleift að mæla, klippa til hljóðbrot og miðla þeim til notenda, meðal annars í orðabókum á vefnum.

Þessi nýja tækni gerir okkur kleift að skoða atriði sem áður var erfitt að fanga. Hér hef ég sérstaklega í huga orðræðuagnir sem stundum hafa verið kallað umferðarmerki talmálsins. Þar á ég við ýmiss konar hljóð, orð og frasa sem við notum til að bregðast við segðum viðmælenda og stýra samtölunum í ákveðnar áttir, t.d. ah, jæja og heldur betur. Með orðræðuögnum geta mælendur t.d. kvittað fyrir móttöku upplýsinga (mhm, ) og gefið í skyn hvort þær séu nýjar eða komi á óvart (, ha, er það). Þær má einnig nota til að ná athygli viðmælanda (heyrðu) og til að gefa til kynna að hann þurfi að endurtaka fyrri orð (ha). Notkun orðræðuagna fylgir skýrum reglum sem vert er að rannsaka.

Samtalsorðabók

Samtalsorðabók er veforðabók í vinnslu sem beinir sjónum að orðræðuögnum og öðrum einkennum talaðs máls (t.d. blótsyrðum, kveðjum og kurteisisfrösum). Orðabókin sýnir brot úr samtölum þar sem uppflettiorðið kemur fyrir. Notendur geta svo hlustað á dæmin með því að smella á spilarann. Spurningin sem orðabókinni er ætlað að svara er eftirfarandi: Hvað gerir þetta orð hér í þessu samtali?

Mynd 3 sýnir skjáskot úr Samtalsorðabók. Uppflettiorðið er alveg rétt. Sjálfsagt þykir okkur alveg ljóst hver merking þessara orða er en vitum við hvernig orðasamband er notaða í samtölum?

Skjáskot úr samtalsorðabók: Dæmi 1. Staðfestir móttöku upplýsinga sem mælandi hafði gleymt en verið minntur á aftur (e. recollection). Samhengi: Hlaðvarpsþáttur frá 2020. Rætt um söngkonu. "Hún keppir í Eurovision tvö þúsund og þrjú." "Jájá" "Með laginu Open you heart." "já alveg rétt." "Manstu það open your heart show me the way you don't matter who you are". Fyrir neðan textann er boðið upp á að hlusta á dæmið í heild og að hlusta á stakt orð.
Mynd 3: Uppflettiorðið „alveg rétt“ í Samtalsorðabók.

Eins og dæmið gefur til kynna er alveg rétt t.d. notað þegar við erum minnt á eitthvað sem við vissum fyrir. Með því að bregðast við með orðasambandinu alveg rétt sýnir B að upplýsingarnar sem A deilir með sér í línu 3 eru honum kunnugar. Dæmið má hlusta á hér.

Eins og sést á ofangreindu gegnir orðasambandið alveg rétt ákveðnu hlutverki í samtölum sem ekki er svo auðvelt að lesa út úr hefðbundnum orðabókum sem yfirleitt einblína á stök orð. Vefur á borð við þennan getur því haft mikið gildi, sér í lagi fyrir annarsmálshafa sem eru að læra íslensku.

Birt þann 5. nóvember 2024
Síðast breytt 5. nóvember 2024
Heimildir

Samtalsorðabók. Helga Hilmisdóttir (ritstj.). Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Helga Hilmisdóttir. 2023. Samtalsorðabók. Veforðabók sem varpar ljósi á munstur í munnlegum samskiptum. Orð og tunga 25:157–169.