Skip to main content

Pistlar

„Skemmtilegt er myrkrið"

Hér má heyra lestur Sveinbjargar Júlíu Kjartansdóttur Scheving á sögunni.

 

SKEMMTILEGT ER MYRKRIÐ

Í fyrndinni og allt til vorra daga var það landssiður að vaka yfir líkum og var það oftast gjört við ljós ef nótt var eigi albjört.

Einu sinni dó galdramaður nokkur, forn í skapi og illur viðureignar. Vildu fáir verða til að vaka yfir líki hans. Þó fékkst maður til þess sem var hraustmenni mikið og fullhugi að því skapi.

Fórst honum vel að vaka. Nóttina áður en átti að kistuleggja slokknaði ljósið litlu fyrr en dagur rann. Reis þá líkið upp og mælti: "Skemmtilegt er myrkrið."

Vökumaður svaraði: "Þess nýtur þú ekki." Kvað hann þá stöku þessa:

Alskínandi er nú fold,
út er runnin gríma.
Það var kerti en þú ert mold
og þegiðu einhvern tíma.

Síðan hljóp hann á líkið og braut það á bak aftur. Var það síðan kyrrt það sem eftir var nætur.

 

Birt þann 2. október 2019
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

 

Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson sáu um útgáfuna. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1961, I, 219–220.