Skip to main content

Pistlar

Mannsskinnsskórnir

Hér má heyra Solveigu Nordal lesa söguna.

 

MANNSSKINNSSKÓRNIR

Um mannsskinn er það mælt að það sé mesta höfuðþing til skæða og slitni aldrei ef ekki er gengið á þeim skóm í kirkjugarð eða stigið á vígða mold og er saga þessi til sannindamerkis um það. Einu sinni var bóndi á bæ; hann var við margt brugðinn. Illt orð fór og af honum um hjúahald og tolldu vinnumenn þar illa hvort heldur hefur komið af illu mataræði, atlæti eða eftirrekstri með vinnu. Svo fór loksins að enginn vildi fara til bónda fyrir vinnumann og var við því búið að hann yrði einn að vinna alla karlmannavinnu. Einu sinni bar svo við að maður nokkur sem var á lausum kjala, en þó dugnaðarmaður, þar í sveitinni kom til bónda þessa. Bóndi tók honum með kostum og kynjum, bauð honum í skemmu hjá sér og fór að tala við hann um hitt og þetta. Þar með bar á góma hjá þeim hjúahald og vinnufólksekla. Loksins stakk bóndi upp á því við hann að hann skyldi nú verða vinnumaður hjá sér næsta ár. En maðurinn var ófús til þess vegna orðrómsins sem á lá. Bóndi biður hann þá að vera hjá sér þó eigi sé lengur en á meðan hann slíti einum skóm. Maðurinn hugsar með sér að skórnir sé þó stundlegir og einhvern tíma muni þeir slitna og verði það þá stund, en engin ævi, sem hann verði hjá bónda, og svo fór að hann hét bónda þessu. Síðan kom maðurinn á krossmessunni vorið eftir og fékk bóndi honum nýgerða skó, ekki ýkja þykka, og sagði vinnumanninum um leið að þegar hann væri búinn að slíta þessum skóm skyldi vistarráðum hans lokið hjá sér ef hann svo vildi, en það áskildi bóndi að hann fengi aðra skó í hvert sinn sem hann færi til kirkju og lét vinnumaður sér það vel líka,

Mannsskinnsskórnir

Nú leið og beið í langa tíma að ekki sá meira á skóm vinnumannsins eftir heilt ár heldur en hann hefði sett þá upp í gær. Varð hann þá angurvær út af þessu loforði sínu, en þótti skömm að bregða það og ganga burtu, en leitt þótti honum lífið hjá bónda þessum. Svo var hann hjá honum annað árið til og sá enn lítið á skóm hans og hafði hann þó aldrei sett upp aðra í þessi tvö ár nema þegar hann fór til kirkju. Maðurinn furðaði sig mjög á þessu og þóttist nú vita að þetta var ekki einleikið, en vissi þó ekki hverjum brögðum hann var beittur.

Einn sunnudag þegar hann var farinn að byrja þriðja árið var hann heima og fór ekki til kirkju; því voru honum ekki heldur fengnir neinir kirkjuskór sem annars var vant þegar hann ætlaði í guðshús. Þegar fólkið var allt farið og bóndi til kirkjunnar fer maðurinn að hugsa um ástand sitt og hvenær þessi ánauð sín hjá bónda muni linna. Meðan hann var að velta þessu fyrir sér kom til hans maður. Komumaður tekur þegar eftir því að vinnumaður var mjög áhyggjufullur og spyr hann hvað að honum gangi, eða því hann hafi ekki farið til kirkju í dag sem annað fólk. Vinnumaður sagðist einhvern veginn ekki hafa haft sinnu á því, hann væri að hugsa um raunir sínar. Aðkomumaður sagði að það væri engin afsökun fyrir hann að fara til kirkju þó hann þættist raunamæddur því það væri mein sem allir hefði til brunns að bera og ekki mundi raunir hans léttast við það þó hann sæti eftir af kirkjuferð og skyldi hann nú fara þegar í stað til kirkjunnar því ekki væri enn svo áliðið að hann næði ekki messu, enda væri tekið í seinna lagi til því grafið hefði verið fyrir messu og hefði það dregið tímann. Maðurinn sagðist ekki geta farið því sig vantaði kirkjuskóna sína. Komumaður sagði hann gæti gengið á skónum sem hann hefði á fótunum. „Nei,“ segir maðurinn, „ég hef lofað að ganga ekki á þeim til kirkju hversu lengi sem ég yrði í þessari góðu vist og hef alltaf fengið aðra skó til þess, en í morgun vildi ég enga kirkjuskó af því ég ætlaði ekki að fara.“ Komumaður spyr hversu lengi hann hefði þá verið í vistinni. „Of lengi,“ segir maðurinn, „það er nú byrjað þriðja árið,“ og dæsti við. „Þykir þér ekki vistin góð?“ segir komumaður. „Það er fjarri því,“ segir vinnumaðurinn, „það er mitt mesta mein að hafa verið hér svo lengi.“ „Hvað bindur þig hér?“ segir komumaður. „Loforð mín,“ segir vinnumaður og segir honum upp alla sögu. Þegar komumaður hafði heyrt sögu hans segir hann honum að hann skuli nú þegar í stað fara á skónum sem hann sé með til kirkjunnar og skuli hann ganga að gröfinni sem tekin hafi verið í dag og fara þar í vígða mold með skóna og vita hvernig svo fari því það sem hann hafi haft á fótunum núna á þriðja ár séu skæði úr hrygglengju á kerlingu, og mundu þeir skór halda þó hann gengi á þeim til eilífðar ef það ætti fyrir honum að liggja að verða svo gamall. Vinnumaður þakkaði komumanni heilræðin, kvaddi hann og hljóp á stað til kirkjunnar.

Þegar hann kom inn í kirkjugarðinn tók hann eftir því að skórnir flögnuðu upp að vörpum, en þegar hann sté í moldina með þá dröfnuðu þeir af fótunum á honum svo ekki var annað eftir en vörpin og þvengirnir. Svo gekk hann með skóvörpin yfir um ristarnar inn í kirkju og var prestur nýkominn upp í stól. Þegar úti var finnur maðurinn bónda og sýnir honum hvernig komið var með skóna að ekki var eftir af þeim nema vörpin ein og segir sig um leið úr allri þjónustu við hann. Bónda varð ekkert að orði nema þetta: „Til nokkurs saztu heima af kirkjuferðinni í morgun.“

Birt þann 7. október 2019
Síðast breytt 24. október 2023