Sögn Eðvarðs Gíslasonar frá Nýja Íslandi
Árnagarði 30. júlí 1974
Sagar sama tréð allan veturinn
[H.Ö.E.:] Ég man ekki hvort ég hef nokkurn tíma spurt þig um Kristján geiteying. Þekktirðu hann nokkurn tímann?
Nei, ég þekkti hann ekki.
[H.Ö.E.:] Neeei.
En ég heyrði getið um hann.
[H.Ö.E.:] Já.
Og hann sagði góðar sögur. Hef ég, hef ég sagt þér nokkrar sögur af honum?
[H.Ö.E.:] Ég bara man ekki til þess.
Já, hann var í, hann var í Mikleynni. Þú veist hvar hún er. Hún er í, í, í Winnipegvatni þar sem Íslendingar settust að fyrst þegar þeir komu, í Mikleyna, austur í Winnipegvatni. Og hann var þar snemma á árum.
Og eitt haustið þá fór hann vestur, vestur að Kyrrahafsströnd að leita sér atvinnu. Og hann vann þar við skógarhögg. Og hann var að segja frá þessu, fjarskalega stóru, stóru, hérna trjám sem voru þar. Hann sagðist hafa farið út um haustið, í okt-, í október með öðrum manni, með langa þverskeru að saga niður tré. Og hann var að saga það þangað til að komið var undir vor. Og þá datt þeim í hug að ganga í kring um tréð og vita hvað væri mikið eftir. En þá voru tveir menn hinum megin og höfðu verið að saga allan veturinn [hlær].
Kind frýs föst í loftinu
Og svo var hann að segja Englending frá því hvað það væri, gæti orðið kalt í Nýja Íslandi. Hann sagði að einn, einn morgun hefði bóndi komið út og þá hefði kind verið þar inni í, í, í heystakk, inni í, inni í girðingu þar. Og honum rann í skap og hann hóf kindina upp og ætlaði að henda henni yfir, yfir girðinguna. En þá var svo kalt að hún fraus í loftinu, kom aldrei niður. Og þá sagði Englendingurinn: "Nú lýgurðu! Hvað varð um þyngdarlögmál?"
"Það var frosið líka," sagði hann [hlær].
Svona sögur sagði Kristján.
Af stórum skipum í Ameríku
Já, og svo var hann að segja frá því, þegar hann kom heim til Íslands. Hann hafði farið heim til Íslands og hann var þar að ferðast með, með strandferðaskipi. Og það var gömul kona þar og hún komst að því að hann hefði verið í Ameríku og fór nú að spurja hann hvurt það væri ekki allt saman stórkostlegt þar.
"Jújú, mikil ósköp."
"Og það eru nú víst stór skipin þar?"
"Já, minnstu ekki á það," sagði hann. Hann sagðist vita til þess að það hefði tólf ára drengur farið upp í reiða, var að gera við segl, eða, og hann kom niður aftur, - það var svo langa, - og þá var hann giftur með familíu [hlær].
Þetta kannski er nú dálítið skrýtilegt, sérðu. Jám.
[H.Ö.E.:] Þetta hefur gengið þarna í Nýja Íslandi?
Jájájá.
[H.Ö.E.:] Staflaust.
Jájá.
[H.Ö.E.:] Og verið sagt oft?
Og það voru margar fleiri sögur sem ég man nú ekki, ja, því að hann var annálaður fyrir að segja sögur.