Rannsóknarverkefnið hlaut þriggja ára styrk úr Rannsóknarsjóði Rannís á árinu 2016. Verkefnið snýst um að greina kveðskap sem er að finna í íslenskum miðaldasögum um Ísland. Beitt verður aðferðum rafrænna hugvísinda. Verkefnið byggist á því viðamikla rafræna gagnasafni („big data“) sem hefur orðið til í alþjóðlega útgáfuverkefninu Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages (the Skaldic Project) og á þeirri nákvæmu greiningu á myndmáli, tungumáli og bragfræði sem þar liggur til grundvallar og gerir nýjar og róttækar rannsóknarspurningar mögulegar. Rannsóknarverkefnið snýr að gagnagreiningu en einnig að rannsókn á myndmáli, tungumáli og bragfræði kveðskapar í þeim sögum sem skrifaðar voru um íslenska viðburði og væntanlega fyrir íslenska áheyrendur sérstaklega. Hið einstaka gagnasafn býður einnig upp á samanburð við kveðskap frá 9.–11. öld í öðrum sögum sem skrifaðar voru á Íslandi og í Noregi. Rannsóknarverkefnið er það fyrsta í sinni röð sem nýtir sér þennan gagnagrunn til að skoða málfræðileg einkenni, bragfræði og myndmál. Verkefnisstjóri er Guðrún Nordal, en samverkamenn eru Tarrin Wills (Kaupmannahafnarháskóla), Klaus Johan Myrvoll (Óslóarháskóla), Soffía Guðný Guðmundsdóttir (Árnastofnun) og Ármann Jakobsson (Háskóla Íslands).