Skip to main content

Rökstuðningur dómnefndar 2023

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar

Jónas Hallgrímsson var ekki aðeins skáld og náttúrufræðingur heldur líka atorkusamur þýðandi skáldskapar og vísindatexta. Sá veruleiki sem blasti við honum og samtímamönnum hans tók örum breytingum svo stöðugt þurfti að finna ný hugtök til að lýsa fyrirbærum, tilfinningum og hugsunum. Að fella veröldina í orð felur nú sem þá í sér nýjar áskoranir á degi hverjum og þó að netorðabækur, þýðingarvélar og gervigreind séu góðar til síns brúks þá er vandséð að sá sköpunarmáttur sem býr í mannlegum huga verði nokkurn tíma leystur af hólmi. Þýðendur eru kannski mikilvægari á okkar dögum en nokkru sinni fyrr því færni þeirra ræðst ekki aðeins af því að geta fundið þá þýðingu sem er líklegust tölfræðilega heldur getur góð þýðing lokið upp heimi sem gefur innsýn í sögu, samfélag, menningu og siðvenjur sem búa í öðru tungumáli.

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar hlýtur að þessu sinni þýðandinn Áslaug Agnarsdóttir sem hefur á undanförnum árum fært Íslendingum ljóð og sögur af rússnesku í snilldar þýðingum. Af ljóðskáldum sem Áslaug hefur þýtt má nefna Marínu Tsvetajevu og af sagnaskáldum Lev Tolstoj, Alexander Púshkín og Fjodor Dostojevskíj. Þá hefur hún og þýtt tvær skáldsögur úkraínska rithöfundarins Andrej Kúrkovs sem vakið hafa mikla athygli.

 

Sérstök viðurkenning fyrir stuðning við íslenska tungu

Jónas Hallgrímsson auðgaði íslenska tungu ekki aðeins með fjölmörgum nýyrðum heldur kynnti hann líka til sögunnar erlenda bragarhætti eins og sonettuna. Um leið gagnrýndi hann rímur, vinsælustu bókmenntagreinina á Íslandi, sem átti sér alda langa sögu. Þessar athafnir hans voru ekki óumdeildar og enn þann dag í dag vekja þær knýjandi spurningar. Verkefnið Menningin gefur sem hófst árið 2020 vekur áþekkar spurningar en þar er á ferðinni samstarfsverkefni Ós Pressunar, Borgarbókasafnsins og Bókmenntaborgarinnar Reykjavíkur. Segja má að þungamiðja verkefnisins sé námskeiðið VV sögur þar sem Elsa G. Björnsdóttir, túlkur, leikkona og ljóðskáld kenndi þátttakendum gerð VV sagna sem byggja á sérstökum sjónrænum aðferðum við að flytja bókmenntir, hér mætti jafnvel tala um nýtt skáldskaparmál. Í kjölfar námskeiðsins skrifaði Anna Valdís Kro mjög metnaðarfulla BA-ritgerð sem byggði á viðtölum við níu döff þátttakendur í námskeiðinu þar sem meðal annars er glímt við stöðu Íslensks táknmáls gagnvart táknmáli VV sagna, sem segja má að sé alþjóðlegt. Þátttakendur veltu líka fyrir sér menningararfi íslenska döff samfélagsins og síðast en ekki síst stöðu döff bókmennta í íslenskri bókmenntasögu. Aðstandendur Menningin gefur vinna nú að gerð heimildamyndar sem verður örugglega til þess að örva enn frekar bókmenntir á táknmáli og sjálfsagðrar viðurkenningu þeirra sem hluta af íslenskum bókmenntum.