Haukur Þorgeirsson flytur fyrirlestur í Eddu kl. 12 á þriðjudaginn næsta (6. janúar) í tengslum við handritasýninguna Heimur í orðum. Allir velkomnir.
Hin fornu dróttkvæði eru samtímaheimildir um víkingaöld og lýsingar sjónarvotta á atburðum þess tíma, einkum á hernaði jarla og konunga. Hirðskáldin fluttu höfðingjunum kvæði sem endurspegla þá ímynd sem þeir vildu gefa af sér. En hvernig var sú ímynd og hvaða lífsviðhorf eða siðferðiskennd birtist í henni?
Á sýningunni Heimur í orðum má finna dróttkvæðar vísur frá víkingaöld sem lesnar eru með endurgerðum fornum framburði. Vísur þessar eru eftir Valgarð á Velli og fjalla um árás Haralds harðráða á Danmörku um miðja 11. öld. Í kveðskap Valgarðs er nærgöngul lýsing á framgöngu hins harðráða konungs og manna hans. Bæir eru brenndir og bændalýður tvístrast á flótta út á skóg. Síðan segir Valgarður að „fögur sprund“ séu tekin höndum og leidd í fjötrum út á skip sigurvegarans.
Í dróttkvæðum má finna ýmis dæmi um að lýst sé verkum sem væru ódæðisverk frá sjónarhóli kristilegs siðferðis síðari tíma. Þegar Valgarður flutti Haraldi lofkvæði sitt hefur þó áreiðanlega ekki verið ætlunin að brigsla honum um að gera neitt rangt. Í erindinu verður lýst þeim viðhorfum til hernaðar sem birtast hjá hirðskáldum víkingaaldar og þær bornar saman við lýsingu Friedrichs Nietzsche á „höfðingjasiðferði“.
