Rannsóknir á íslenskri tungu
Rannsóknir á íslensku máli eru stundaðar á fjölbreyttum grunni við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Meðal rannsóknarefna eru orðaforði málsins, beygingarkerfi, málstefna, staða og stöðlun íslensku og íðorðafræði. Enn fremur málnotkun, bæði samtímaleg og söguleg. Önnur viðfangsefni snerta örnefni og fleiri greinar nafnfræði. Stofnunin er jafnframt vettvangur fyrir margbreytileg verkefni sem heyra undir máltækni.
Niðurstöður rannsókna eru gjarnan birtar í formi útgáfu eða gagnasafns.
Niðurstöður rannsókna eru gjarnan birtar í formi útgáfu eða gagnasafns.
Málrækt
Stofnunin sinnir meðal annars íslenskri málrækt og sérhæfðum orðaforða. Hún veitir almenningi og sérfræðingum málfarsráðgjöf og leiðbeiningar um vandað mál, réttritun, orðmyndun, íðorðastarf og fleira og aðstoðar við útgáfu orðaskráa í sérgreinum. Meðal annars eru stundaðar rannsóknir á sögu og forsendum íslenskrar málræktar, málstöðlun, leiðum til að auðga málið og efla notkun þess á sem flestum sviðum, á stöðu tungunnar fyrr og síðar og innra og ytra samhengi.
Orðfræði
Á orðfræðisviði stofnunarinnar er unnið að margvíslegum fræðilegum og hagnýtum verkefnum. Þar eru stundaðar samtímalegar og sögulegar rannsóknir á íslensku máli og orðaforða frá siðskiptum til nútímans og sviðið varðveitir og annast söfn Orðabókar Háskólans. Þá er sviðið miðstöð fyrir fræðilega og hagnýta orðabókafræði og það er í forystu um nýjungar í orðabókagerð. Meðal viðfangsefna þess er útgáfa rafrænna orðabóka um íslensku, bæði gerð nýrra verka og endurgerð gamalla orðabóka.
Máltækni
Stofnunin annast hagnýt og fræðileg verkefni á sviði máltækni með því markmiði að styðja málrannsóknir, gerð orðabóka og efla þróun máltæknibúnaðar. Afrakstur slíkra verkefna nýtist bæði innan og utan stofnunarinnar. Á meðal verkefna sem heyra undir máltækni eru Risamálheildin sem er málfræðilega markað safn íslenskra texta, og Samhliða málheild milli íslensku og ensku. Stofnunin er aðili að CLARIN-innviðaverkefninu (European Research Infrastructure for Language Resources and Technology).
Nafnfræði
Á stofnuninni eru stundaðar rannsóknir í nafnfræði og unnið að margvíslegum verkefnum sem tengjast örnefnum, m.a. í samstarfi við Landmælingar Íslands og Þjóðskrá Íslands. Starfsmenn svara fyrirspurnum um örnefni og nafnfræði almennt og eru til ráðgjafar fyrir almenning og stofnanir um söfnun, skráningu og varðveislu örnefna og jafnramt um nýjar nafngiftir. Örnefnanefnd hefur aðsetur á stofnuninni.
Í örnefnasafni stofnunarinnar eru geymdar skrár um örnefni á flestum jörðum á Íslandi.
Í örnefnasafni stofnunarinnar eru geymdar skrár um örnefni á flestum jörðum á Íslandi.