Skip to main content

Röskun verður á þjónustu Árnastofnunar næstu mánuði. Sjá nánar.

Orðfræði

Orðfræði
Á orðfræðisviði eru stundaðar rannsóknir í íslenskri málfræði, orðabókafræði og máltækni. Málrannsóknir á sviðinu beinast einkum að orðfræði þar sem orð og orðaforði eru í brennidepli. Sviðið annast söfn Orðabókar Háskólans, bæði varðveislu þeirra og margvíslega úrvinnslu úr efniviðnum, og þar er jafnframt unnið að frekari heimildasöfnun um orð og notkun þeirra í rituðu og töluðu máli og þróun nýrra aðferða við efnisöflun og úrvinnslu.

Stofnunin er í forystu um nýjungar í orðabókagerð og þar er miðstöð orðabókarfræði á Íslandi. Starfmenn orðfræðisviðs búa yfir þekkingu og reynslu á þessu sviði og vinna að þróunarstarfi og hagnýtum verkefnum á sviði orðabókagerðar auk rannsókna. Náin tengsl eru á milli orðabókagerðar og máltækni og á stofnuninni eru unnin hagnýt og fræðileg máltækniverkefni sem styðja málrannsóknir og orðabókagerð. Afrakstur þeirra nýtist bæði innan og utan stofnunarinnar.
Orðabækur
Stofnunin er í forystu um nýjungar í orðabókagerð. Á orðfræðisviði hafa verið sett saman og gefin út nýstárleg verk um íslensku, bæði hefðbundnar orðabækur á nýjum grunni og óhefðbundnari orðabókaverk sem nálgast form og merkingu orða á nýjan hátt. Mörg þessara verka eru eingöngu gefin út rafrænt og í þeim hefur verið leitast við að nýta tölvutæknina til fulls, bæði við gerð verkanna og útgáfu. Einnig hafa gamlar, markverðar orðabækur um íslensku verið endurútgefnar, bæði á prenti og í rafrænu formi. Auk orðabókaverka hefur stofnunin komið upp rafrænum málsöfnu af ýmsu tagi sem nýtast við orðabókagerð.
Söfn Orðabókar Háskólans
Stofnunin varðveitir söfn Orðabókar Háskólans sem eru ein mikilvægasta heimild sem til er um íslenskan orðaforða og þróun hans frá upphafi prentaldar um miðbik 16. aldar fram til nútímans. Söfnin eru varðveitt á pappírsseðlum sem geyma dæmi um notkun orða í samhengi eða umsagnir um orð og einkenni þeirra í töluðu eða rituðu máli, þar á meðal talsvert efni úr gömlum orðabókahandritum sem sum hafa aldrei verið gefin út.
Norrænt félag um orðabókafræði
Norrænt félag um orðabókafræði (NFL) er samstarfsvettvangur orðabókafræðinga á
Norðurlöndum. Félagið stendur fyrir reglulegum ráðstefnum og málþingum og gefur út tímaritið
LexicoNordica. Ísland á fulltrúa í stjórn félagsins og í ritstjórn tímaritsins.
Samevrópsk orðabókagátt
Stofnunin er aðili að Samevrópskri orðabókagátt. Þar er sameiginlegur aðgangur að orðabókum um fjölmörg evrópumál, þar á meðal íslensku.