Sögn Guðjóns Árnasonar að Espihóli
Gimli, EF 72/11
Já, ég skal byrja til dæmis þegar þeir vóru að koma hér til Nýja Íslands. Þá, þá komu þeir oní ósa. Og það var, það var gufubátur sem dró þá norður á Vatnið. Ferðinni var heitið norður að Riverton. En svo gerði stólparok frá suðaustri og maðurinn sem að renndi gufubátnum segir: "Nú fer ég ekki fetinu lengra og nú verð ég að höggva þessa pramma, sem þið eruð á, aftan úr og þið verðið að bjarga ykkur sem best þið getið."
Og það verður úr að þeir eru höggnir lausir en til allrar guðs lukku þá vóru þetta vanir sjómenn og þeir koma inn hérna, inn þessa, til Willow Island sem að kölluð er nú. Það er mikil höfn þar inni og mjótt sund en þeir slömbruðu þangað inn og þar var sest að, - ég held að það hafi verið tuttugasta og fyrsta...
[Kona:] október.
eða, eð-, tuttugasta og fimm...
[Kona:] Tuttugasta og fyrsta október.
Var það tuttugasta og fy-? Jæja, og svo, svo vóru þeir þarna og fyrsta barnið sem fæddist hér í vestrinu, hann heitir Jón Jóhannsson. Hann fæddist níunda nóvember og það, það hríðaði og skefldi inn í tjaldið þegar að þessi drengur var að fæðast og ég var með þessum manni fjölda-fjöldamörg ár og líkaði vel við hann. En hann, hann er nú dáinn fyrir nokkrum árum. Hann dó þegar hann var sextíu og fimm ára gamall.
Og svo byrjuðu þeir að byggja og gengu, gengu upp að Gimli og þeir fóru að byggja kofa. Og það gekk nú furðanlega vel fyrst en samkomulagið var nú ekkert of gott. Sumir héldu að sinn kofi ætlaði að koma seint upp og, og það var hálfgerð misklíð í þeim, - eins og Íslendingar hafa verið alltaf gjarnir á að rífast og svo náttúrlega hafa ekki trúarbrögðin bætt neitt úr, býst ég við, því að þaug hafa alltaf verið Þrándur í Götu þar sem Íslendingar hafa flækst.
Og ég, ég álít að þeir hafi verið heppnir þegar þeir stofnuðu sína nýlendu hér. Það var náttúrlega fyrstu árin ekkert nema fiskur að lifa á og, - en þeir höfðu, bjuggu sér bjálkakofa og höfðu nóg að bíta og brenna. Og ég held að samkomulagið við indjána hafi verið heldur gott. Það vildi til dálítil misklíð þegar að, ja, ég held að þeir hafi nú ekki átt að fara lengra heldur en norður að Fljótinu. En svo vildi nú landinn víkka sitt, sitt umdæmi og þeir reru yfir Fljótið. En þá vóru indjánarnir norðan við fljótir og þeir hrintu þeim til baka aftur. En landinn var seigur og hann reri til baka aftur og ennþá hrinti indjáninn þeim til baka. Og þá er maður þar sem Ólafur heitir, heitir og grípur exi og, og, og segir: "Róið þið nú piltar," og stendur framí stafni. Og þá létu indjánarnir þá lenda og, og, og varð ekkert mjög slæmt samkomulag með þeim.
Nú ætla ég að láta þetta duga fyrir stund.