Sögn Guðjóns Erlends Narfasonar
Gimli, EF 72/13
Já, eins og mér var sögð sagan þá er ég nú ekki viss um að ég geti haft það rétt eftir. En Kristján og hans kona höfðu greiðasöluhús í Winnipeg, eða - sem við köllum borðingshús , - er það nú kallað. Og konunni þótti ofninn trekkja illa og var að fara fram á það við Kristján oft að hann hreinsaði rörpípurnar; úr þeim öskuna og sótið. Og Kristján þráaðist við og, og þetta gekk nokkuð lengi og einu sinni einn dag þá brá konan sér eitthvað frá í eftirnónið , og þá grípur Kristján tækifærið og hreinsar rörpípurnar. En það var eitt meðal annars sem þeir höfðu, sem þau höfðu í húsinu, - var forláta köttur sem konan hafði fjarska mikið álit á og þótti vænt um en Kristján vildi fyrir langalöngu vera búinn að eyðileggja köttinn en það dugði nú ekki fyrir, fyrir konunni. Hún bannaði alltaf að eyðileggja köttinn.
Jæja, svo þegar að konan kemur heim þá skíðlogar í ofninum og hún verður náttúrlega fegin að það er búið að, - og finnur það, sér það undireins að það er búið að hreinsa rörpípurnar því að ofninn trekkir svo vel. Svo líður dálítil stund og þá saknar konan kattarins. Svo hún fer að hafa orð á þessu við Kristján, hvað hafi orðið af kettinum. "Ja," hann segir, "það var nú sorglegt hvernig fór með köttinn. Ég hreinsaði rörpípurnar, eins og þú varst búin alltaf að suða um að ég gerði, og kveikti svo upp í ofninum.
Ja, þegar ég er búinn að kveikja upp í ofninum þá trekkir ofninn svo að það fer að hlýna undir eins í húsinu og kötturinn kemur nærri til þess að fá sér yl hjá ofninum því að honum var orðið hálfkalt. Það kólnaði í húsinu á meðan ég var að hreinsa rörpípurnar" - Þá var ekki hægt að hafa eld og þetta var um hávetur og...
"Jæja, þegar hann kemur nærri ofninum þá trekkir ofninn svo að hann fer að soga í sig köttinn og þegar ég ætlaði að grípa í skottið á kettinum til þess að bjarga honum þá er hann bara kominn inn í ofninn. Ofninn var búinn að sjúga hann inn í sig. Og ég missti alveg af honum þarna í ofninum. Og þvílík hörmungarsjón að sjá aumingja kvikindið, hvurnig hann krækti klónum í gólfið til þess að halda sér frá ofninum. En það dugði ekki."
Og svo var ekki sagan lengri.