Skip to main content

Pistlar

kollsigla

Sagnorðið að kollsigla merkir að sigla skipi eða báti svo mikinn að farið þolir ekki ferðina og leggst á hlið eða jafnvel hvolfir. Þetta orð, kollsigla, er gamalt í málinu, en kemur þó ekki fyrir að fornu, ef marka má orðabækur. Orðabók Háskólans hefur dæmi um orðið frá 17. öld, hið elsta úr Reisubók Jóns Ólafssonar Indíafara saminni af honum sjálfum 1661. Fáein dæmi eru um orðið í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans frá 17. og 18. öld, en það er ekki fyrr en á hinni 19. og 20. að það verður algengt á bókum. Nokkur dæmi: 

 • hann kollsigldi sig í miðjum Arnarfirði. (17. öld)
 • lá [þ.e. skipið] kollsiglt í 16 stundir, en fékk þó viðréttst aptur. (19. öld)
 • nokkrir segja ... [að þeir] muni hafa kollsiglt sig á heimleiðinni. (19. öld)
 • vóru tveir að sigla á bát og kollsigldu sig. (19. öld)
 • fiskiskúta ... kollsigldi sig í Norðfjarðarflóa í landnorðanstormi. (20. öld)

Þegar kemur fram á 20. öld fer að bera á yfirfærði merkingu í sagnorðinu kollsigla (sig). Það verður æ algengara að nota það á félagslega, stjórnmálalega og fjármálalega sviðinu í merkingunni ‘hlekkjast á, komast í þrot; verða gjaldþrota’ eins og sjá má af dæmum í ritmálssafninu og víðar:

 • Íslenska auðvaldið ... hefur bæði verið heimskt og samtakalaust og því legið við að kollsigla sig á þeim skerjum sem auðvaldið erlendis með léttu móti hefur komist fram hjá.
 • að þjóðfélagið kollsigldi sig ekki í því umróti.
 • Gömlu þjóðstjórnaröflin kollsigldu sig um tíma á kúgunartilraunum sínum gagnvart verkalýðshreyfingunni.
 • að auka líka að einhverju leyti kjölfestuna, ef þjóðin ætti eigi að kollsigla sig.
 • best sé að hækka kaupið sem minnst, annars kollsiglum við öllu og rauntekjurnar verða bara enn þá lægri.
 • Það er hægt að kollsigla þjóðarbúið á fleiri sviðum en í fjármálastarfsemi.

Sagnorðið kollsigla á sér hliðstæður í skyldum grannmálum. Í færeysku er til sögnin kollsigla (um bát) ‘hvolfa’, í norsku er sama orð, kollsigla, sömu merkingar og í íslensku ‘fara á hlið, hvolfa; misheppnast, komast í þrot’, og í dönsku hefur orðið verið notað frá fornu fari og er notað enn í nútímadönsku, kuldsejle

Sú spurning vaknar, hvort orðið kollsigla muni vera tökuorð úr dönsku í íslensku eða sameiginlegur norrænn arfur. Elsta dæmi um orðið í íslensku er, eins og áður segir, úr Reisubók Jóns Indíafara sem var sjóliði í danska hernum og sigldi víða um heim á árunum 1615–26. Þetta atriði og sú staðreynd að orðið er mjög gamalt í dönsku, kynni að benda til þess að hér sé tökuorð á ferðinni, en ekkert verður fullyrt um það að sinni.

(október 2008)

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023