Skip to main content

Fréttir

Tímaritið Orð og tunga 25 komið út – þemahefti um blótsyrði

Hópur mótmælenda. Maður með skilti sem á stendur "Helvítis fokking fokk".
Þórhildur Laufey Sigurðardóttir

Orð og tunga, árlegt tímarit Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, er komið út. Að þessu sinni kölluðu ritstjórar sérstaklega eftir greinum um blótsyrði en árið áður hafði stofnunin skipulagt málþing þar sem íslenskir og evrópskir fræðimenn kynntu nýjar rannsóknir á þessu sviði. Lykilfyrirlesari málþingsins var Ármann Jakobsson, prófessor í íslenskum miðaldabókmenntum við Háskóla Íslands. Fjórar fræðigreinar bárust um íslensk blótsyrði og birtast þær í heftinu ásamt öðrum greinum sem eru á sviði nafnfræði og orðabókarfræði.

Fyrsta grein heftisins byggist á lykilfyrirlestri Ármanns Jakobssonar. Þar skoðar hann tvö tilvik í Njáls sögu þar sem tröll eru ákölluð til að greina betur merkingu blótsins og varpa ljósi á tilgang þess (á ensku). Í grein Ástu Svavarsdóttur má svo lesa greinargott yfirlit yfir orðmyndun og setningagerð blótsyrða. Veturliði Óskarsson kafar dýpra í orðin fokk og fokka sem eiga sér lengri og flóknari sögu í íslensku en margir gera sér grein fyrir. Katrín Axelsdóttir skoðar skammaryrði á borð við helvítið þitt.

Auk þemagreina er í tímaritinu einnig að finna tvær ritrýndar greinar sem varpa ljósi á samfélagslega mikilvæg störf sem sinnt er af málfræðingum. Í fyrri greininni segja Rósa Elín Davíðsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir, ritstjórar íslensk-frönsku orðabókarinnar Lexíu, frá hugmyndunum að baki orðabókinni og lýsa ýmsum áskorunum sem þær hafa tekist á við við gerð hennar. Í seinni greininni fjalla svo Ágústa Þorbergsdóttir og Guðrún Kvaran um tilurð og þróun mannanafnaskrár. Í greininni má kynna sér úr hvaða jarðvegi skráin var sprottin og hvernig samfélagslegar breytingar hafa haft mótandi áhrif á störf mannanafnanefndar.

Tvær smágreinar eru í heftinu. Sú fyrri er eftir Svavar Sigmundsson og fjallar um blótsyrði í örnefnum. Í seinni greininni beinist svo kastljósið aftur að mannanöfnum og mannanafnaskránni, en að þessu sinni velta Ágústa Þorbergsdóttir og Guðrún Kvaran fyrir sér hvaðan fólk fær hugmyndir að nýjum nöfnum. Í síðasta hluta heftisins má svo lesa ritdóm um bókina Á sporbaug og fréttir úr heimi málfræðinnar.

Tuttugasta og fimmta hefti Orðs og tungu er aðgengilegt öllum í rafrænu formi á vefsíðu tímaritsinsPrentaða útgáfu heftisins má nálgast í bókabúðum eða panta hjá Bóksölu stúdenta. Ritstjórar eru Ellert Þór Jóhannsson og Helga Hilmisdóttir.