Á næsta ári verða 50 ár liðin frá heimkomu fyrstu handritanna 21. apríl 1971. Af því tilefni hefur Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hafið undirbúning að verkefni sem miðar að því að kynna öllum sjöttubekkingum landsins sögu íslenskra miðaldahandrita og menningararfleifðina sem í þeim býr. Verkefnið er margþætt, meðal annars er unnið að gerð kennsluefnis um handritaarfinn fyrir skólana sem kennarar geta síðan notað að vild. Safnkennari stofnunarinnar Svanhildur María Gunnarsdóttir mun heimsækja grunnskóla á landsbyggðinni og bjóða upp á fræðslu um menningararfinn, gerð og ritun skinnhandrita miðalda auk handritasmiðju. Undanfarin fimm ár hefur hún starfrækt og haft umsjón með safnfræðslu og handritasmiðju í fræðslurými Safnahússins við Hverfisgötu í því augnamiði að auka þekkingu á eðli handrita sem sjá má á sýningunni Sjónarhorn og fengið til sín fjöldann allan af skólahópum. Þessu til viðbótar má nefna að til verkefnisins telst barnabók sem rithöfundurinn Arndís Þórarinsdóttir vinnur að og segir frá ævintýralegri sögu Möðruvallabókar, auk handritahátíðar ungmenna sem haldin verður í Hörpu 21. apríl 2021 − sama dag og bók Arndísar mun koma út. Að lokum má geta þess að hönnuð verður sérstök vefsíða handa börnum og ungmennum tileinkuð handritunum. Verkefnisstjóri er Eva María Jónsdóttir.