Þjóðfræðisafn Árnastofnunar geymir yfir 2000 klukkustundir af viðtölum sem flest voru tekin á árunum 1960 til 1980. Þau innihalda ómetanlegar upplýsingar um lífið snemma á 20. öld ásamt ævintýrum, sögnum, þulum og fleira þjóðfræðiefni. Viðtölin hafa um árabil verið aðgengileg til hlustunar á vefnum Ísmús.
Í byrjun árs 2022 hófst verkefni í samstarfi við Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista sem snerist um gerð talgreinis sem þjálfaður yrði á þessum hljóðupptökum með það að markmiði að hægt yrði að leita í þeim og lesa. Verkefnið var unnið í samstarfi við tæknifyrirtækið Tíró og styrkt af innviðasjóði Rannís. Því lauk á vormánuðum 2023 og nú hafa uppskriftirnar verið gerðar aðgengilegar og leitarbærar á vefnum sem mun stórbæta aðgengi að safninu. Hljóðritasafnið hefur verið grundvöllur fjölmargra rannsókna í þjóðfræði en fram að þessu hefur þurft að hlusta á upptökurnar til að fá fulla yfirsýn yfir efni þeirra en á vefnum hefur aðeins verið skráður stuttur útdráttur ásamt efnisorðum. Að geta lesið uppskriftir upptakna mun stórbæta aðgengi að safninu. Hafa ber þó í huga að þar sem um vélrænan lestur er að ræða eru margar villur í textunum.
Á næstu mánuðum verða uppskriftirnar einnig gerðar aðgengilegar fyrir málfræðirannsóknir í málheildinni Gamli, svo sem rannsóknir á orðaforða fólks, en viðmælendur safnsins voru margir hverjir fæddir seint á 19. öld eða snemma á þeirri tuttugustu.
Hjá stofnuninni unnu að verkefninu Einar Freyr Sigurðsson, Finnur Ágúst Ingimundarson, Rósa Þorsteinsdóttir, Steinþór Steingrímsson ásamt Trausta Dagssyni.