Skip to main content

Pistlar

Máldagi Alviðru í Dýrafirði 1344 – AM Dipl. Isl. fasc. I, 10

Fornbréf með áföstu innsigli.

Auk handrita varðveitir Árnastofnun fjölda fornbréfa á skinni og pappír. Árni Magnússon safnaði íslenskum, norskum og dönskum fornbréfum en safni hans var smám saman skipt upp á 20. öld í samræmi við óskir um handritaskil sem tengdust sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og Norðmanna. Um þessar mundir fer fram skráning á þessum hluta safnsins en sú vinna er hluti af stóru samstarfsverkefni, en aðrar stofnanir sem taka þátt í því eru Arkivverket í Noregi, Den Arnamagnæanske Samling í Kaupmannahöfn og Þjóðskjalasafn Íslands. Bréf þessi eru þó flest prentuð í Íslensku fornbréfasafni og sambærilegum útgáfum í hinum löndunum. Íslensku fornbréfin sem skilað var til Íslands úr Árnasafni í Kaupmannahöfn skiptust milli Þjóðskjalasafns Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og helgast skiptingin af skilaeiningum frá Kaupmannahöfn, annars vegar 1928 og hins vegar 1996. Sjá m.a. á vef Þjóðskjalasafns.

AM Dipl. Isl. fasc. I, 10 er fyrst í númeraröð þeirra fornbréfa sem Árnastofnun varðveitir. Það er ritað í Alviðru í Dýrafirði í tilefni af kirkjuvígslu þar á staðnum árið 1344. Skjalið sjálft er fallegur gripur með hangandi innsigli. Á yfirborði skinnsins má merkja för eftir verkun þess og á það er ritað með fíngerðri léttiskrift. Innsigli biskups hangir í skinnþveng neðan úr bréfinu og á því eru leifar af mynd af skrýddum biskupi þar sem grillir í hægri hönd sem lyft er upp í blessunarstöðu. Umhverfis mannsmyndina er hamrað tíglamynstur og leifar af skrauti meðfram jaðri. Innsiglismyndin er pressuð í klump af ólituðu vaxi sem festir saman tvo enda af skinnþveng sem smeygt er í rifu neðst í bréfinu, svokallað þvengsgat. Venjulega er brotið upp á neðri jaðra svona bréfa svo þvengurinn fari í gegnum tvöfalt skinn en hér hefur verið sléttað alveg úr og einnig hefur verið gert við vaxið í innsiglinu.

Á bakhlið bréfsins sést vel hvernig það hefur verið brotið saman. Aftan á innsiglinu er einnig far eftir áhald sem notað hefur verið til að þrýsta á móti innsiglisstimplinum sjálfum. Á einum fleti bakhliðar bréfsins er letur sem Stefán Karlsson telur hugsanlega hönd Eggerts Hannessonar lögmanns. Þar stendur „Bréf fyrir Alviðru kirkju“ og einnig er þar ártalið 1344.

Bakhlið fornbréfs með áföstu innsigli.

Innihald máldagans AM Dipl. Isl. fasc. I, 10 er í þremur liðum:

  1. Ákvæði um helgihald
  2. Eignaskrá (þ.e. upptalning á kirkjugripum)
  3. Fjármál (lýsistollur og tíðaoffur)

Textinn sjálfur er eftirfarandi:

„Öllum góðum mönnum þeim sem þetta bréf sjá eður heyra sendir bróðir Jón með guðs miskunn biskup j Skálaholti, q[veðju] G[uðs] og sína kunnigt gerandi að sub anno domini millesimo. ccc°. xl°. quarto. nonis septembris, vígðum vér kirkiu í Alviðru í Dýrafirði, guði til heiðurs og dýrðar, og hans signuðu móður jungfrú Maríu, hinum heilaga Olafuo, og blessuðum Benedicto með þeim máldaga að þar skal syngjast síðari messa annan hvern dag helgan. En páskadag og Maríu messu fyrri skal syngjast síðari messa. Þó að eigi teljist svo til, er kirkjudagur Maríu messu síðari, skal þá syngjast í fyrr nefndri kirkju allar kirkjudagshátíðir, og fyrra messa. En Maríu messu tíðir heima að Gnúpi með síðari messu. Kirkja á innan sig Maríu skript, Ólafs líkneski, ij. krossa með líkneskjum, hinum þriðja hefur játað til Bárður bóndi og glerglugg, og þar með líkneski sancti Benedicti. iij altara klæði klukkur. iij. og hin fjórða brotin. Prestur skal taka. ij. merkur í tíða offur og kost með hverri messu. En bóndi skal taka heima tíund og lýsitoll, sinn og sinna heimamanna. Og til sanns vitnisburðar settum vér vort innsigli fyrir þetta bréf er gjört var í Alviðu, ári, og degi fyrr sögðum.“

Þetta er hefðbundin eignaskrá kirkju en ávarpið í upphafi textans er um margt forvitnilegt þó að það sé að mestu í samræmi við skjöl af þessu tagi. Það er einkum tvennt sem vekur sérstaka athygli: „Bróðir Jón með guðs miskunn biskup í Skálholti.“ Vitað er að Jón var munkur áður en hann varð biskup en ekki hvar. Hitt sem er óvenjulegt er hvernig dagsetning þess er orðuð. Í velflestum fornbréfum eru tilvísanir í dagsetningar tengdar hinu kirkjulega tímatali þar sem vísað er í helgidaga og dýrlingamessur. Hér er aftur á móti vísun í mánuðina eins og við þekkjum þá: „sub anno domini millesimo ccco xlo quarto. nonis septembris.“ Út frá rómverskri dagatalningu telst það vera 5. september 1344.

Ítarleg skráningarfærsla bréfsins er á handrit.is.

Um bæinn Alviðru í Dýrafirði, sjá nafnið.is.

Birt þann 20. ágúst 2024
Síðast breytt 20. ágúst 2024
Heimildir

Bréfið er prentað í Íslenzku fornbréfasafni II, bls. 786–787 og útgáfu Stefáns Karlssonar, Islandske originaldiplomer, bls. 21.

Páll Eggert Ólason. Íslenzkar æviskrár III. Reykjavík, 1950, 257.

Um rómverska tímatalið, sjá m.a. á vef Wikipedia.