Skip to main content

Breytileiki Njáls sögu

Markmið verkefnisins var að rannsaka breytileika Njáls sögu með aðferðum málvísinda, bókmenntafræði, handrita- og textafræði þar sem bæði er beitt samtímalegri greiningu, í tilfelli elstu handritanna sem eru frá 14. öld, og sögulegri greiningu sem felst í því að kanna hvaða breytingar verða á texta og handritum í tímans rás. Rannsókninni er einkum beint að þeim þáttum í varðveislusögu Njálu sem hafa hlotið fremur litla athygli, svo sem elstu brotum sögunnar, handritinu Gráskinnu og pappírshandritum frá síðari öldum, og hún tekur mið af nýjum kenningum sem leggja áherslu á breytileika texta í handritum. Með þessu er leitast við að sýna hvernig hin lifandi hefð Njálu var á hverjum tíma, hvað einkenndi texta verksins og gerð Njáluhandrita á ólíkum tímapunktum frá 14. til 19. aldar og hvernig breytilegur texti og útlit haldast í hendur við þarfir og viðhorf skrifara, verkbeiðenda og notenda. Verkefnið mun mynda grunn að rafrænni gagnaveitu um Njáls sögu og nýrri útgáfu sögunnar.