Skip to main content

Viðburðir

Yngst en samt fornlegust: Um Trektarbók Snorra-Eddu

12. ágúst
2025
kl. 12–13

Árnastofnun
Eddu, Arngrímsgötu 5
107 Reykjavík
Ísland

Handritaskipti á sýningunni Heimur í orðum verða þriðjudaginn 12. ágúst og ný handrit munu líta dagsins ljós. Af því tilefni mun Haukur Þorgeirsson rannsóknarprófessor fjalla um Trektarbók Snorra-Eddu sem geymd er alla jafna í Utrecht í Hollandi en verður nú til sýnis næstu þrjá mánuði í Eddu.

Edda Snorra Sturlusonar var vinsæl bók á miðöldum á Íslandi. Oft vísa skáldin til hennar og af henni eru varðveitt sjö skinnhandrit frá fjórtándu og fimmtándu öld. Engin tvö þessara handrita innihalda nákvæmlega sama efnið því að verkið var í stöðugri þróun og endursköpun eins og algengt er um kennslubækur.

Trektarbók Snorra-Eddu er hins vegar ekki skinnbók heldur pappírshandrit, rituð um 1600. Af meginhandritum Eddu er Trektarbók yngst en samt er hún eina handritið sem geymir verkið í því formi sem talið er upphaflegast, án þess að nokkru hafi verið sleppt eða bætt við. Jafnframt varðveitir hún oft fornlegri rithætti en önnur handrit og er mjög dýrmæt heimild til að hjálpa okkur að skyggnast inn í skrifstofur 13. aldar þar sem Edda varð til.

Talið er að Snorri Sturluson (d. 1241) hafi samið Trektarbók sem kennslubók í skáldskaparfræðum. Hún er í samtalsformi og fjallar um norræna goðafræði, skáldamál og bragarhætti. Handritið, sem er til sýnis, skrifaði Páll Jónsson í Þernuvík við Ísafjarðardjúp í lok 16. aldar eftir skinnbók frá 13. öld sem nú er glötuð.

Á 17. öld barst handritið til Kaupmannahafnar og var um hríð í eigu Ole Worms prófessors. Síðan komst bókin í hendur þýska fræðimannsins Christians Rave sem gaf hana Háskólabókasafninu í Utrecht árið 1643. Þar hefur handritið verið varðveitt alla tíð síðan.

Trektarbók er nú á Íslandi í fyrsta skipti í 400 ár. Haukur fjallar um sögu handritsins og gildi þess og hefst erindið kl. 12 í fyrirlestrasal Eddu.

Allir velkomnir.

 

2025-08-12T12:00:00 - 2025-08-12T13:00:00