Skip to main content

Viðburðir

Sigurðar Nordals fyrirlestur. Þórarinn Eldjárn: ,,Það kalla ég íslensku."

14. september
2009
kl. 17–18

Á fæðingardegi dr. Sigurðar Nordals hinn 14. september gengst stofnunin fyrir svokölluðum Sigurðar Nordals fyrirlestri. Fyrirlesari að þessu sinni verður Þórarinn Eldjárn, skáld og rithöfundur. Fyrirlesturinn nefnist: ,,Það kalla ég íslensku." Fjallar hann um lauslegar athuganir skáldsins á stöðu íslensks máls og ljóðs.

Þórarinn nam bókmenntir og heimspeki við Háskólann í Lundi í Svíþjóð 1969 – 1972, íslensku við Háskóla Íslands 1972 -–1973, bókmenntir í Lundi 1973 – 1975 og lauk þaðan fil kand prófi vorið 1975. Frá árinu 1975 hefur hann starfað sem rithöfundur og þýðandi.

Þórarinn hefur sent frá sér fjölda ljóðabóka, smásagnasafna og skáldsagna og auk þess þýtt bókmenntaverk fyrir fullorðna og börn úr Norðurlandamálum og ensku. Þórarinn hefur sent frá sér nokkrar ljóðabækur fyrir börn í samstarfi við systur sína, myndlistarkonuna Sigrúnu Eldjárn. Verk eftir Þórarin hafa verið þýdd á fjölda tungumála.

Á sl. ári var gefið út Kvæðasafn Þórarins og á dögunum kom út nýtt smásagnasafn hans, Alltaf sama sagan.

Þórarinn Eldjárn var borgarlistamaður Reykjavíkur 2008. Hann hefur m.a. hlotið ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar 2006, barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur 1998, og Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á Degi íslenskrar tungu 1998.

Þórarinn er varaformaður Íslenskrar málnefndar.

Fyrirlesturinn er í boði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

2009-09-14T17:00:00 - 2009-09-14T18:00:00