Skip to main content

Viðburðir

Sigur og kvöl − sagnastund á ensku með Karen Gummo

22. október
2023
kl. 14–15

Edda,
Arngrímsgötu 5,
107 Reykjavík,
Ísland

Sagnastund á ensku með Karen Gummo verður haldin 22. október í fyrirlestrasal Eddu.

Í meira en þrjátíu ár hefur Karen Gummo komið víða við sem sögukona. Hún hefur kennt á þessu sviði og hefur hvatt nemendur sína til að kanna eigin rödd sem sögumenn og um leið hefur hún kafað ofan í skandinavíska arfleifð sína.

Að þessu sinni bregður Karen sér í hlutverk vesturíslenska rithöfundarins Lauru Goodman Salverson þar sem hún situr í eldhúsi sínu í Winnipeg árið 1955, þá 65 ára gömul. Þegar þar var komið sögu hafði hún tvisvar fengið Kanadísku ríkisstjóraverðlaunin í bókmenntum og gefið út fjölda skáldsagna, smásagna, leikrita og ljóða, auk æviminninga sinna Játningar landnemadóttur (ísl. þýð. Margrétar Björgvinsdóttur 1994). Í þessari sagnastund segir Karen frá átökum Lauru og annars rithöfundar, Winnifred Eaton Reeve, um leið og hún býr til Vínartertu, kökuna sem Vestur-Íslendingar hafa gert að sinni táknmynd. Minni er marglaga fyrirbæri.

Á milli sögukafla syngur Karen erindi úr Á Sprengisandi sem minna hana á ýmislegt frá þessu dramatíska skeiði í lífi Lauru.

Kynnir verður Désirée Louise Neijmann.

2023-10-22T14:00:00 - 2023-10-22T15:00:00
Nánar um Lauru Goodman Salverson og Winnifred Eaton

Fyrir hundrað árum, haustið 1923, varð Laura, þá 33 ára, fyrsti höfundurinn í Kanada af íslenskum uppruna til að gefa út skáldsögu sem skrifuð var á ensku – og öðlaðist samstundis frægð og viðurkenningu í kanadísku bókmenntalífi. Í þessari fyrstu skáldsögu sinni, Víkingahjartanu segir frá innflytjendum frá Íslandi til Manitoba og hvernig þeir aðlöguðust lífi í nýju landi – sem þeir fórnuðu sér m.a. fyrir með þátttöku í fyrri heimsstyrjöldinni. Sagan af Víkingahjartanu er „full af sögulegri rómantík, samfélagsævintýrum og persónulegum harmleik“ svo vitnað sé í káputexta útgáfunnar frá 1975.

Laura fæddist í Winnipeg árið 1890, dóttir íslenskra innflytjenda, og eyddi hluta bernsku sinnar í baráttu við alvarleg veikindi, ein fjögurra úr fimmtán barna hópi sem lifðu til fullorðinsára. Hún hlaut litla formlega menntun þó að hún hafi lesið mikið og tileinkað sér verk höfunda á borð Victor Hugo, T.S. Eliot, Charles Dickens, Thomas Hardy og William Makepeace Thackeray – auk þess að verða vel að sér í íslenskum fornsögum. Faðir hennar var söðlasmiður og ljóðrænn draumóramaður en móðirin var jarðbundin og vann sleitulaust við erfiðar aðstæður til að hægt væri að framfleyta fjölskyldunni. Báðir foreldrar hennar heilluðu börn sín með sagnaskemmtun úr lífi fjölskyldunnar á meðan þau fluttu á milli staða í Manitoba og í Bandaríkjunum norðanverðum.

Winnifred Eaton, hliðstæða Lauru í Calgary, breyttist frekar fljótt úr sjálfskipuðum leiðbeinanda Lauru (hún var fimmtán árum eldri en Laura) í að verða keppinautur hennar. Winnifred var dóttir innflytjenda, fædd árið 1875 í Montreal, af breskum og kínverskum uppruna og yngst í átta barna fjölskyldu. Winnifred Eaton kynnti sig fyrst sem japanskan rithöfund undir nafninu Onoto Watanna og hafði gefið út ellefu skáldsögur og ótal smásögur þegar Víkingahjartað kom út. Eftir að hún fluttist til Alberta frá New York árið 1917 og hóf búskap með nýjum eiginmanni Frank Reeve og þremur börnum sínum, ákvað hún loks að skrifa vestrasöguna Cattle undir eigin nafni: Winnifred Eaton. Upphaflega kom hún þessari sögu á framfæri eftir fimm ára ævintýradvöl á Bow View Ranch (skammt frá Banff í Alberta) sem handriti að kvikmynd, en þegar sögunni var hafnað í Hollywood breytti Winnifred henni í skáldsögu sem kom líka út 1923.

Árið 1923 urðu því mikilvæg þáttaskil bæði hjá hinni ungu Lauru G. Salverson, sem var nýkomin fram á sviðið sem útgefinn skáldsagnahöfundur, og fyrir hinn gamalreynda rithöfund Winnifred, sem var að umbreytast í vesturkanadískan höfund. Báðar konurnar höfðu rótgróna löngun til að hverfa inn í sagnaheiminn og deila þeirri sýn með öðrum. Hvernig magnaðist togstreitan á milli þeirra? Tengdist það sjálfsmynd þeirra, metnaði og fjárhagslegri nauðsyn? Hvaða aðstæður urðu til að magna upp átökin? Þessum spurningum verður velt upp á sagnaskemmtun Karenar Gummo.