Skip to main content

Viðburðir

Margaret Clunies Ross: Trúarkveðskapur á miðöldum

22. maí
2007
kl. 12.15–13

Þriðjudaginn 22. maí kl. 12:15 mun Margaret Clunies Ross prófessor við University of Sydney halda opinberan fyrirlestur á vegum hugvísindadeildar Háskóla Íslands í Odda sem nefnist Trúarkveðskapur miðalda. Clunies Ross mun í fyrirlestrinum ræða íslenskan trúarlegan kveðskap frá miðöldum, og benda um leið á ýmis sérkenni hans. Mjög mikið er varðveitt af kristilegum dróttkvæðum frá 12., 13. og 14. öld, en lítið hefur verið um þau fjallað í samanburði við varðveittan veraldlegan kveðskap frá sama tíma og vísur elstu skálda. Á þessu ári er væntanleg ný útgáfa á öllum varðveittum trúarlegum kveðskap frá miðöldum, sem birtast mun sem 7. bindið í nýrri alþjóðlegri útgáfu dróttkvæðanna, Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages (útg. Brepols). Margaret Clunies Ross er ritstjóri þess bindis og mun í fyrirlestrinum draga fram spennandi rannsóknarleiðir sem hafa nú opnast við að taka til endurmats þau fjölbreyttu íslensku trúarkvæði sem varðveist hafa frá miðöldum.

Margaret Clunies Ross er McCaughey Professor of English Language and Early English Literature við University of Syndney og forstöðumaður Centre for Medieval Studies við sama skóla. Hún hefur verið mjög afkastamikil í rannsóknum á sviði miðaldafræða, og ritað fjölmargar bækur á sviði íslenskra miðaldabókmennta, s.s. Skáldskaparmál (1987), Prolonged Echoes. Old Norse Myths in Medieval Northern Society1-2 (1994 og 1998), og A History of Old Norse Poetry and Poetics (2005).

2007-05-22T12:15:00 - 2007-05-22T13:00:00