Miðvikudaginn 27. október verður þess minnst að öld er liðin frá fæðingu Óskars Halldórssonar.
Óskar var kennari í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands í rösklega áratug frá árinu 1968 en hann lést fyrir aldur fram árið 1983. Í tilefni aldarafmælisins gefur Hið íslenska bókmenntafélag út safn ritgerða eftir Óskar undir heitinu Í bragar túni og má þar finna greinar bæði um fornbókmenntir og um ljóðagerð 19. og 20. aldar. Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og Árnastofnun gangast í sameiningu fyrir málþingi af þessu tilefni sem haldið verður í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands 27. október kl. 16.15. Þar munu þrír fyrrverandi nemendur Óskars flytja stutt erindi, þau Bergljót S. Kristjánsdóttir, Gísli Sigurðsson og Örnólfur Thorsson. Öllum er heimill aðgangur meðan húsrúm leyfir.