Hjalti Snær Ægisson flytur fyrirlestur í tengslum við sýninguna Heimur í orðum.
Tveggja postula saga Jóns og Jakobs er lengsta sagan í Skarðsbók postulasagna, hinu gagnmerka handriti sem er talið ritað á Íslandi um 1360. Í sögunni er greint frá bræðrunum Jakob og Jóhannesi Sebedeussonum, lærisveinum Krists, og því ötula starfi sem þeir vinna við að útbreiða boðskap meistara síns eftir krossfestinguna.
Sagan hefur löngum þótt óhóflega löng og sundurlaus, enda samsett úr fjölda heimilda sem eru oft nefndar beint í texta sögunnar. Finnur Jónsson lýsti verkinu í bókmenntasögu sinni árið 1901 sem „sérlega langdreginni og óbærilega leiðinlegri framleiðslu“ (‚en overordenlig vidtløftig og ulidelig kedsommelig fremstilling‘).
Í fyrirlestrinum verður því hins vegar haldið fram að sagan sé heildstætt og haganlega samsett listaverk með skýra stefnu þar sem allur textinn (útúrdúrarnir þar með taldir) þjónar markvissum tilgangi.
Við rekjum okkur í gegnum atvik sögunnar lið fyrir lið og grennslumst fyrir um aðferð höfundarins, listrænar ákvarðanir og aðlögun þeirra latínubóka sem lagðar eru til grundvallar við ritun sögunnar.
