Skip to main content

Viðburðir

Kynning á verkefnum á vegum Miðstöðvar stafrænna hugvísinda og lista

13. september
2023
kl. 11–12

Miðvikudaginn 13. september kl. 11 verður haldin kynning á tveimur verkefnum sem unnin voru í samstarfi við Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista.

Trausti Dagsson, verkefnisstjóri í upplýsingatækni á Árnastofnun, og Luke O'Brien, máltæknisérfræðingur hjá Tiro, kynna verkefnið Talgreining á Ísmús og uppbygging textasafns fyrir eldra talmál. Verkefnið snerist um gerð talgreinis sem þjálfaður yrði á hljóðupptökum Árnastofnunar með það að markmiði að hægt yrði að leita í þeim og lesa. Verkefnið var unnið í samstarfi við tæknifyrirtækið Tíró og styrkt af innviðasjóði Rannís. Því lauk á vormánuðum 2023 og nú hafa uppskriftirnar verið gerðar aðgengilegar og leitarbærar á vefnum sem mun stórbæta aðgengi að safninu.

Bragi Þorgrímur Ólafsson, fagstjóri handritasafns Landsbókasafns, og Unnar Ingvarsson, fagstjóri stafrænnar endurgerðar hjá Þjóðskjalasafni Íslands, kynna verkefnið Transkribus – tölvulestur handskrifaðra skjala. Markmið verkefnisins var að búa til íslenskan grunn fyrir Transkribus-hugbúnaðinn sem les handskrifaðan texta frá 18. og 19. öld með hjálp gervigreindartækni og gerir hann læsilegan og leitarbæran.

Þá mun Una Haraldsdóttir sagnfræðinemi segja frá reynslu sinni af því að nota Transkribus-hugbúnaðinn í verkefni sínu um dagbækur Sveins Þórarinssonar.

Kynningin fer fram í fyrirlestrasal Þjóðarbókhlöðunnar.

 

2023-09-13T11:00:00 - 2023-09-13T12:00:00