Klarsprog 2023 er hluti norrænnar ráðstefnuraðar um skýrt og skiljanlegt málfar, einkum í upplýsingagjöf á vegum stjórnvalda, stofnana og fyrirtækja. Yfirskriftin að þessu sinni er Klarsprog og kommunikation. Informationsformildling for alle i krisetider. Horft er til samskipta við almenning þegar vá steðjar að, á borð við náttúruhamfarir, stríð eða heimsfaraldur. Ráðstefnan er rafræn. Þátttaka er gjaldfrjáls en skráningar er krafist.
Um ráðstefnuröðina
Norrænn vinnuhópur í nánum starfstengslum við málnefndir norrænu ríkjanna fimm eða skrifstofur þeirra hefur umsjón með ráðstefnuröðinni. Situr Ari Páll Kristinsson hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í hópnum af Íslands hálfu. Árið 2011 var ráðstefnan haldin hérlendis síðast og vorið 2023 er röðin komin aftur að Íslendingum. Í innlenda undirbúningshópnum eru nú auk Ara Páls þau Anna Sigríður Þráinsdóttir, málfarsráðunautur hjá Ríkisútvarpinu og stjórnarmaður í Íslenskri málnefnd, Eva S. Ólafsdóttir hjá dómsmálaráðuneytinu og Hallgrímur J. Ámundason, menningar- og viðskiptaráðuneyti, formaður Málnefndar Stjórnarráðsins.
Nánari upplýsingar á heimasíðu ráðstefnunnar.