Málþing Málnefndar Háskóla Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum þriðjudaginn 7. október 2025 kl. 13–16 í fyrirlestrasal Eddu (E-103).
Háskóla Íslands er lögum samkvæmt ætlað að miðla þekkingu og færni til nemenda og samfélagsins alls jafnframt því að vera virkur þátttakandi í alþjóðlegu fræðasamfélagi. Brýnt er að til sé skýr og nákvæmur fræðilegur orðaforði á íslensku við hlið fræðiorða á erlendum tungumálum svo iðka megi vísindi og fræði á íslensku og miðla til nemenda og samfélagsins á Íslandi. Háskóli Íslands gegnir veigamiklu hlutverki í að stuðla að viðgangi íslenskrar tungu og sjá til þess að hún sé nothæf — og notuð — á öllum fræðasviðum. Öflugt íðorðastarf er forsenda þess að unnt sé að tala um og miðla vísindum og fræðum á íslensku.
Á þessu málþingi verður fjallað um íðorðastarf innan Háskóla Íslands. Rektor Háskóla Íslands, Silja Bára R. Ómarsdóttir, flytur inngangserindi en hún hefur sjálf tekið þátt í vinnu við íðorðasafn um alþjóðastjórnmál og stjórnmálafræði. Rætt verður um Íðorðabanka Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem er opið rafrænt safn er geymir sérfræðiorð í fjölda starfs- og fræðigreina. Þá verður sagt frá fjórum orðasöfnum í ólíkum greinum, jarðeðlisfræði, efnafræði, leiklist og orðasafni um risaeðlur. Rætt verður um vinnuna við söfnin og fjallað um spurningar á borð við: Hvaða orða- og hugtakalistar voru lagðir til grundvallar? Hvaðan kom íslenski orðaforðinn? Var þörf á mikilli nýsmíði orða eða var drjúgur hluti þegar til?
Dagskrá
- Silja Bára R. Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands
- Ágústa Þorbergsdóttir, ritstjóri Íðorðabanka Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
- Páll Einarsson: orðasafn í jarðeðlisfræði
— Kaffihlé —
- Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson, Egill Antonsson, Katrín Lilja Sigurðardóttir og Sigurður Guðni Gunnarsson: orðasafn í efnafræði
- Viktor Árnason og Rafn Sigurðsson: orðasafn um risaeðlur
- Ása Helga Ragnarsdóttir og Vigdís Gunnarsdóttir: orðasafn um leiklist
Málþingið er öllum opið.